Tekinn af lífi fyrir að hrista dóttur sína til dauða

Robert Roberson er 57 ára gamall.
Robert Roberson er 57 ára gamall. AFP

Nefnd í Texasríki hefur hafnað að náða einhverfan mann sem bíður dauðarefsingar fyrir að hafa hrist tveggja ára dóttur sína til dauða árið 2002.

Robert Roberson er 57 ára gamall og verður á morgun sprautaður með bannvænu efni í fangelsi í Huntsville.

Nefndin skoðaði mál Roberson í dag. Allir sex nefndarmennirnir höfnuðu að mæla með því að Greg Abbott ríkisstjóri myndi náða Roberson.

Abott getur ekki náðað Roberson nema nefndin mæli með því, en hann getur þó frestað dauðarefsingunni um 30 daga.

Gretchen Sween, ein af lögmönnum Roberson, hvatti ríkisstjórann til að fresta refsingunni „svo við getum haldið áfram að sanna sakleysi Roberson“.

„Við biðjum fyrir því að Abbott ríkisstjóri geri allt í sínu valdi til þess að koma í veg fyrir þau hörmulegu óafturkræfu mistök að taka saklausan mann af lífi.“

Lögreglustjórinn telur hann saklausan

Á meðal þeirra sem vilja koma í veg fyrir að Roberson sé tekinn af lífi er maðurinn sem fangelsaði hann, Brian Wharton, fyrrverandi lögreglustjóri í bænum Palestine.

„Með alla þá vitneskju sem ég hef núna, er ég fullviss um að Robert er saklaus maður,“ sagði Wharton á blaðamannafundi sem var skipulagður af stuðningsmönnum Roberson. 

Þá kom bandaríski rithöfundurinn John Grisham einnig fram á fundinum og sagði það ótrúlega við mál Roberson vera „að það var ekki framinn neinn glæpur“.

Talin hafa látist úr lungnabólgu 

Lögmenn Roberson segja mistök hafa verið gerð er læknar sögðu langveiku stúlkuna hafa látist eftir að hafa verið hrist og orðið fyrir svokölluðu „shaken baby“–heilkenni. 

Lögfræðiteymið telur að hin tveggja ára Nikki hefði dáið úr lungnabólgu, sem versnaði eftir að læknarnir ávísuðu röngum lyfjum. 

Sween sagði „yfirgnæfandi nýjar læknisfræðilegar og vísindalegar sannanir“ sýna að Nikki lést af „náttúrulegum orsökum, ekki af illri meðferð“.

Samkvæmt lögfræðiteyminu yrði Roberson fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að vera tekinn af lífi á grundvelli sakfellingar sem byggist á heilkenninu. 

Greindur 2018

Sween sagði að einhverfa Roberson, sem var ekki greind fyrr en árið 2018, hafi átt þátt í því að hann var handtekinn og sakfelldur.

„Það eru líkur á því að Roberson væri ekki á dauðadeild núna ef ekki væri fyrir einhverfu hans.“

Sween sagði að starfsfólk sjúkrahússins sem Nikki var lögð inn á vissi ekki að hann væri einhverfur og töldu að tilfinningaleysi Roberson væri merki um sektarkennd. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert