Vilja binda illsakir ríkjanna í lög

Kim Jong Un ásamt dóttur sinni Ju Ae (önnur frá …
Kim Jong Un ásamt dóttur sinni Ju Ae (önnur frá vinstri) á 79 ára afmælishátíð norðurkóreska Verkamannaflokksins 10. október. AFP/KCNA

Norðurkóresk stjórnvöld hyggjast binda það í stjórnarskrá sína að grannríkið Suður-Kórea teljist „fjandsamlegt“ og mun það vera fyrsta tilfelli lagabreytinga sem runnar eru undan rifjum norðurleiðtogans Kims Jongs-un í hans stjórnartíð.

Samskipti Kóreuríkjanna hafa síst batnað síðan Kim gaf það út í janúar að suðurkóreska höfuðborgin Seúl teldist höfuðóvinur Norður-Kóreu um leið og hann gaf það út að sameining ríkjanna væri ekki lengur inni í myndinni.

Norður-Kóreumenn sprengdu fyrr í vikunni upp brýr og járnbrautarteina milli ríkjanna tveggja auk þess að hafa undanfarna mánuði lagt heilu jarðsprengjuakrana á landamærasvæðinu og aukið öryggisgæslu þar til muna.

Fyrst og fremst í áróðursskyni

Teljast aðgerðirnar í samræmi við væntanlega breytingu á grundvallarlögum landsins sem í kjölfarið munu skilgreina Suður-Kóreu sem óvinaríki auk þess sem norðurkóreska þingið fundaði í síðustu viku og reiknuðu erlendir greiningaraðilar með að þar hafi stjórnarskráin verið tekin til endurskoðunar.

Á þriðjudag sendi suðurkóreski herinn frá sér myndskeið sem sýndu hermenn nágrannans í norðri sprengja upp gamla táknræna vegi milli landanna auk járnbrautarteina, aðeins nokkrum dögum eftir að norðurkóresk stjórnvöld höfðu hótað að loka landamærum ríkjanna varanlega.

Talið er að sprengingarnar hafi fyrst og fremst verið í áróðursskyni, á það hafa sérfræðingar í málefnum Kóreuríkjanna, sem AFP-fréttastofan vitnar í, bent auk þess sem svo virðist sem stjórnvöld í norðurkóresku höfuðborginni Pjongjang hafi notað myndefni sem sýnir suðurkóreska herinn þegar norðurkóreskir fjölmiðlar sögðu fréttir af aðgerðunum.

Kínverjar, helstu bandamenn Norður-Kóreumanna, hvöttu í dag Kóreuríkin til að bera klæði á vopnin í illdeilum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert