Suðurkóreskri leyniþjónustu hefur borist njósn um að Norður-Kóreumenn hafi sent þrjú þúsund hermenn til Rússlands á mánudaginn þar sem þeir eru sagðir hljóta þjálfun í meðferð árásardróna og annars búnaðar áður en þeir halda á vígvelli Úkraínu, rússneskum hermönnum til fulltingis í innrásarstríði þeirra.
Frá þessu greinir bandaríski varnarmálaráðherrann Lloyd Austin í dag og tjáir blaðamönnum að nú ríði á að komast að því hvað hermennirnir norðurkóresku aðhafist.
„Hvað nákvæmlega eru þeir að gera?“ spyr ráðherra, „Það kemur í ljós,“ heldur hann áfram og segir i framhaldinu að um grafalvarlegt mál sé að ræða, leggi Norður-Kóreumenn Rússum lið í stríðinu við Úkraínumenn.
Suðurkóreska leyniþjónustan greindi í fyrstu frá því að rússneski sjóherinn hefði flutt fimmtán hundruð norðurkóreska hermenn til Rússlands í síðustu viku. Þar á undan hafði Volodimír Selenskí Úkraínuforseti borið leyniþjónustu síns ríkis fyrir því að tíu þúsund norðurkóreskir hermenn undirbyggju liðveislu rússneskum sveitum í Úkraínu til handa.
Bandarísk hermálayfirvöld og Atlantshafsbandalagið NATO hafa enn sem komið er ekki formlega staðfest flutning hermannanna frá Norður-Kóreu, en hafa varað við slíkum aðgerðum ef satt reynist. Hvorir tveggju, Rússar og Norður-Kóreumenn, sverja af sér tilfærslu herliðsins frá Norður-Kóreu, að því er fram kemur í fréttaskýringu AP.
Cho Tae-yong, yfirmaður suðurkóresku leyniþjónustunnar, greindi þingi landsins frá því að talið væri að fimmtán hundruð norðurkóreskir hermenn, til viðbótar við hina fyrrtöldu, væru komnir til Rússlands og funduðu með þarlendum herstjórnendum fyrir luktum dyrum. Greindi hann enn fremur frá því að leyniþjónustan teldi að ætlunin væri að alls tíu þúsund hermenn Norður-Kóreu yrðu komnir til Rússlands í desember.
Telur leyniþjónustan að þeir þrjú þúsund hermenn sem nú eru komnir til Rússlands séu dreifðir um herstöðvar víða um land þar sem þeir njóti þjálfunar.
Suðurkóreski þingmaðurinn Lee Seong Kweun hefur það eftir leyniþjónustunni að rússneskir liðþjálfar dái andlegt og líkamlegt þrek norðurkóreska liðsaukans, en vafi leiki hins vegar á því hvernig frammistaða hans á vígvellinum verði þar sem Norður-Kóreumenn skorti grundvallarþekkingu á nútímahernaði sem gæti kostað þá mannfall í Úkraínu.
Leyniþjónustan greinir einnig frá því að rússneski herinn hafi ráðið til sín fjölda túlka.