Reyna að þvinga fólk í herinn

Það er ekki nýtt af nálinni að rússnesk yfirvöld fái …
Það er ekki nýtt af nálinni að rússnesk yfirvöld fái fanga til að taka þátt í hernaðinum í Úkraínu, en með nýrri löggjöf er hægt að gefa fólki, sem hefur verið ákært en ekki hlotið dóm, val um að ganga í herinn gegn því að málið verði þá fellt niður. Fólkið er þá oftast sent beint á fremstu víglínu. Samsett mynd/Colourbox

Fjölskylda rússnesks karlmanns á sjötugsaldri segir að yfirvöld reyni nú að þvinga hann til að taka þátt í hernaði Rússa í Úkraínu. Maðurinn, sem er grunaður um fjársvik, var handtekinn í mars og hefur verið í haldi lögreglu í hálft ár. 

Eru yfirvöld sögð hafa gefið honum val, þ.e. að berjast og fá þá málið líklega fellt niður. Annars þarf hann að svara til saka fyrir dómstóli. 

Andrey Perlov er 62 ára gamall. Hann var handtekinn snemma morguns á heimili sínu 28. mars skammt frá Novosibirsk í Síberíu. Hann er sakaður um að hafa stolið þremur milljónum rúblna frá knattspyrnufélagi í borginni, en hann starfaði sem framkvæmdastjóri félagsins. Upphæðin samsvarar um 4,5 milljónum kr.

Perlov, sem vann til gullverðlauna á Ólympíuleikunum árið 1992 í 50 km kappgöngu, neitar sök. 

Beina sjónum í auknum mæli að fólki sem hefur ekki hlotið dóm

Fram kemur í umfjöllun breska ríkisútvarpsins að það sé ekkert launungarmál að fangar hafi verið fengnir til að berjast með rússneska hernum í Úkraínu. Rannsókn BBC hefur aftur á móti leitt í ljós hvernig stjórnvöld séu farin að horfa í auknum mæli til fólks sem aðeins hefur verið ákært en ekki hlotið dóm. 

Með nýrri löggjöf, sem var samþykkt í mars, er ákæruvaldinu sem og verjendum gert skylt að upplýsa fólk, sem hefur verið ákært fyrir glæp, að það standi frammi fyrir vali. Að það geti gengið í herinn í staðinn fyrir að svara til saka. 

Velji viðkomandi að ganga í herinn verður rannsókninni hætt og málinu alfarið lokað þegar stríðinu lýkur. 

Öllu snúið á hvolf

„Þetta hefur snúið löggæslukerfi Rússlands á hvolf,“ segir Olga Romanova, sem stýrir Russia Behind Bars, sem eru frjáls félagasamtök sem veita föngum lagalega aðstoð. 

„Nú getur lögreglan gripið mann við lík einstaklings sem hann hefur myrt. Þegar þeir herða handjárnin þá getur morðinginn sagt: „Bíðið, ég vil taka þátt í sérstöku hernaðaraðgerðinni“, og þá loka þeir málinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert