Tíu dagar til stefnu og Trump leiðir enn

Svona er staðan samkvæmt RealClearPolitics.
Svona er staðan samkvæmt RealClearPolitics. Kort/mbl.is

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi Demókrata, hefur reynt að mála sig upp sem þann frambjóðanda sem muni hjálpa þjóðinni að „snúa við blaðinu“ og marka nýtt upphaf eftir mikla skautun í bandarísku þjóðfélagi undanfarin ár.

En eftir rúmlega þrjá mánuði í forsetaframboði virðist henni ekki hafa tekist almennilega að útskýra fyrir kjósendum hvernig hún muni stjórna öðruvísi en Joe Biden Bandaríkjaforseti og ríkisstjórn hans, sem þykir heldur óvinsæl.

Í nýrri könnun Wall Street Journal kemur fram að meirihluti kjósenda, eða 54%, telji að hún muni að mestu halda áfram stefnu og nálgun Bidens, en 41% segir að hún muni koma með nýjar hugmyndir og nýja forystu í Hvíta húsið. Meðal óákveðinna kjósenda sögðu þrír af hverjum fjórum að þeir teldu að hún yrði framhald af Biden-stjórninni.

Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana.
Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana. AFP/Getty Images/Anna Moneymaker

Hefur verið helsta áskorun Harris

Spurðir hvaða frambjóðandi myndi ná fram nauðsynlegum breytingum sögðu 49% svarenda í könnuninni Donald Trump, forsetaframbjóðanda Repúblikana, en 40% sögðu Harris.

„Þetta hefur verið helsta áskorunin fyrir Harris í þessari stuttu baráttu. Getur hún verið frambjóðandi breytinga?“ segir David Wasserman, álitsgjafi hjá Cook Political Report, í samtali við dagblaðið Wall Street Journal.

Wasserman segir að þetta sé ekki auðvelt verkefni fyrir Harris.

„Hún þarf að skapa mikinn áhuga meðal þeirra 37% til 40% kjósenda sem telja að forsetatíð Bidens hafi verið farsæl á sama tíma og hún þarf meiri stuðning meðal kjósenda sem vilja miklar breytingar,“ segir hann.

„Það er ekkert sem kemur upp í hugann

Í viðtali við The View í byrjun október var Harris spurð hver yrði „stærsti munurinn“ á Biden-stjórninni og framtíðarforsetatíð Harris. Hún sagði að þau væru „mismunandi fólk“ og benti á stefnu sína í heimahjúkrun og þegar kæmi að litlum fyrirtækjum.

Þá var hún spurð hvort hún hefði gert eitthvað öðruvísi en Biden á yfirstandandi kjörtímabili og Harris svaraði: „Það er ekkert sem kemur upp í hugann ... og ég hef verið hluti af flestum ákvörðunum sem hafa haft áhrif.“

Trump leiðir í sveifluríkjum

Samkvæmt RealClearPolitics, sem tekur saman meðaltal kannana, leiðir Trump í öllum sjö sveifluríkjunum en þó leikur fylgismunurinn á hnífsegg í flestum ríkjum.

Í Pennsylvaníu er Trump með 0,6 prósentustiga forskot á Harris og í Michigan og Wisconsin er hann með 0,2 prósentustiga forskot. Í Georgíu er fylgismunurinn hvað mestur, en Trump er með 2,2 prósentustiga forskot í því ríki og í Norður-Karólínu er hann með 0,8 prósentustiga forskot.

Í Arizona er hann með 1,5 prósentustiga forskot og í Nevada er hann með 0,7 prósentustiga forskot.

Kamala Harris, forsetaframbjóðandi demókrata.
Kamala Harris, forsetaframbjóðandi demókrata. AFP/Getty Images/Roberto Schmidt

Með jafn mikið fylgi á landsvísu

Ef kosningarnar færu á þennan veg myndi Trump hljóta 312 kjörmenn en Harris fengi 226 kjörmenn.

Athygli vekur hversu mikið hefur dregið saman með frambjóðendunum á landsvísu. Síðan 5. ágúst hefur Harris mælst með meira fylgi en Trump, en í gær gerðist það í fyrsta sinn síðan 5. ágúst að báðir frambjóðendur mældust með jafn mikið fylgi að meðaltali, eða 48,5%.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert