Óprúttnir aðilar, sem hafa lifibrauð sitt af þeirri iðju að svíkja fé út úr öðrum, grípa nú æ oftar til ofbeldis og fólskuverka salti sínu í grautinn til framdráttar.
Frá þessu greinir norska efnahagsbrotalögreglan Økokrim í áhættumatsskýrslu sinni fyrir árið 2024 en skýrslan greinir enn fremur frá því að svikið fé út úr Norðmönnum hafi í fyrra hlaupið á einum milljarði króna, andvirði 12,5 milljarða íslenskra króna. Þrjár af hverjum fjórum tilraunum til svika á árinu hafi verið á stafrænum vettvangi.
„Noregur er lítið samfélag byggt á trausti,“ skrifar Pål K. Lønseth, forstöðumaður efnahagsbrotalögreglunnar norsku, í inngangi sínum að skýrslunni sem verður að teljast svört miðað við sumt sem í henni er að finna. „Hreinskilni er grunnskilyrði norsks lýðræðis og trausts almennings í garð yfirvalda,“ skrifar hann enn fremur.
Benda greinendur Økokrim á að heimur fjársvika sé almenningi að mestu hulinn og setja svo fram lista yfir helstu áskoranir og veikleika. Áskoranirnar séu einkum að forkólfar skipulagðrar glæpastarfsemi færi starfsemi sína nú hröðum skrefum inn í lögmætan fyrirtækjarekstur, hópar með torséð tengsl innbyrðis búi í æ ríkari mæli yfir hæfni og þekkingu sér til framdráttar, efnahagsbrot fléttist orðið inn í starfsemi ríkisstofnana og hótanir og ofbeldi séu að ryðja sér til rúms í heimi efnahagsbrota.
Veikleikarnir gefa síst meira tilefni til bjartsýni en áskoranirnar og eru fyrst og fremst þeir að lögregla setji efnahagsbrot ekki meðal forgangsverkefna sinna, ýmis kerfi byggist um of á því að notendur þeirra séu dagfarsprútt og heiðarlegt fólk, lögreglan sé eftir á í tæknilegum uppfærslum og að upplýsingastreymi sé slitrótt milli opinberra embætta annars vegar og hins vegar milli einkageirans og annarra opinberra stofnana.
Í skýrslunni er það enn fremur dregið fram að ofbeldi sé nú tíðara í háttsemi svindlara en áður þekktist, þegar lögbrjótarnir stóðu sjaldnast augliti til auglitis við fórnarlömb sín. Nú þekkist fjöldi dæma um allt annan raunveruleika, svo sem nýlegt dæmi um svikahrappa sem rændu konu á níræðisaldri og fluttu hana nauðuga til Dúbaí á meðan þeir tóku milljónir norskra króna út af bankareikningum hennar. Mynduðu mannræningjarnir háttsemi sína og hefur lögregla mynd í fórum sínum þessu til jarteikna.
Kveður Økokrim hótanir og ofbeldi nú æ algengari fylgifiska fjársvika sem sé mikil breyting frá því sem áður tíðkaðist.
Lønseth forstöðumaður kynnti skýrsluna á blaðamannafundi í morgun og sagði þar meðal annars að skoða þyrfti áhættumat Økokrim og lögreglunnar í samhengi, ekki sem aðskildar stærðir.
„Skýrslan dregur upp mynd af ógnum gagnvart innviðum samfélagsins sem stafa frá hópum afbrotamanna. Okkar áhættumat er birtingarmynd þess sem við okkur blasir þaðan sem við horfum,“ sagði Lønseth á fundinum.
Þar tók einnig til máls Lone Charlotte Pettersen, deildarstjóri hjá efnahagsbrotalögreglunni, sem lagði áherslu á það í erindi sínu hvernig skipulagðir afbrotamenn færu huldu höfði með athafnir sínar í skjóli löglegs atvinnurekstrar.
Eins og norskir fjölmiðlar fjölluðu nýlega um og mbl.is greindi frá hefur það nú færst í vöxt að svikahrappar heimsæki fórnarlömb sín, einkum eldra fólk, og hafi þá til dæmis villt á sér heimildir og sagst vera frá lögreglunni. Í krafti blekkinga sinna hafi þrjótarnir svo bannað fólki að hringja eða yfirgefa heimili sín á meðan þeir ná fé út af reikningum þess.
Að sögn Lønseth eru höfuðpaurar starfseminnar staddir hvort tveggja í Noregi sem öðrum löndum og þá gjarnan löndum sem Noregur á ekki í sterku löggæslusamstarfi við. „Þetta er áskorun sem við glímum við, en reynslan segir okkur að enginn feli sig til langframa,“ sagði hann á blaðamannafundinum.
Sannkölluð sprenging hefur orðið á skömmum tíma í fjársvikabrotum gagnvart eldri íbúum Óslóar og nágrennis og greinir efnahagsbrotalögreglan frá því að mörg fórnarlambanna hafi þurft að leita sér sérfræðihjálpar vegna andlegra meinsemda í kjölfar atlagna svikahrappa að þeim.
Í fyrra voru 26.000 tilfelli fjársvika eða tilrauna til þeirra kærð til lögreglu sem er þrettán prósenta aukning frá árinu þar á undan.
Hafa norsk stjórnvöld eyrnamerkt Økokrim 300 milljónir króna, jafnvirði rúmlega 3,7 milljarða íslenskra króna, í fjárhagsáætlun yfirstandandi árs og tvöfalda þá upphæð á næstu árum og verði fénu meðal annars varið til að ráða í 25 nýjar stöður hjá efnahagsbrotalögreglunni norsku í baráttu hennar gegn sífellt harðsvíraðri og skipulagðari bölmennum.