Schwarzenegger svíkur lit í kosningunum

Schwarzenegger var ríkisstjóri Kaliforníu.
Schwarzenegger var ríkisstjóri Kaliforníu. AFP

Arnold Schwarzenegger, fyrrverandi ríkisstjóri repúblikana í Kaliforníu og sjónvarpsstjarna til margra ára, hyggst kjósa frambjóðendur demókrata, Kamölu Harris og Tim Walz, í forsetakosningum Bandaríkjanna. 

Frá þessu greinir hann á samfélagsmiðlinum X. 

Hann segir að sér mislíki við frambjóðendur beggja flokka og í þokkabót hati hann stjórnmál.

„Repúblikarnir mínir hafa gleymt fegurðinni sem felst í frjálsum markaði, ýtt undir hallarekstur, og hafnað niðurstöðum kosninga,“ skrifar Schwarzenegger og heldur áfram: „Demókratar eru ekki betri í að ná tökum á hallarekstrinum og ég óttast að stefnur þeirra séu að skaða samfélög með aukinni glæpatíðni.“

Andstætt bandarískum gildum

Hann kveðst aldrei hafa hatað stjórnmál eins mikið og nú, sem hann telur marga skilja. 

„Mig langar að hunsa það sem er í gangi. En ég get það ekki. Af því að höfnun niðurstöðu kosninga er eins andstætt bandarískum gildum og hugsast getur.“

Þá vísaði Schwarzenegger einnig til ummæla Donalds Trumps, forsetaframbjóðanda repúblikana, um að Bandaríkin væru eins og ruslatunna fyrir heiminn. Lét Trump ummælin falla í samhengi við ólöglegar komur innflytjenda.

„[A]ð kalla Bandaríkin ruslatunnu fyrir heiminn er svo andstætt þjóðrækni, að það gerir mig brjálaðan. Ég mun alltaf líta á mig sem Bandaríkjamann fyrst og fremst áður en lít á mig sem repúblikana,“ sagði Schwarzenegger.

„Þess vegna mun ég kjósa Kamölu Harris og Tim Walz í þessari viku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert