Vistir af skornum skammti og nágranninn enn ófundinn

Erla María Huttunen segir að þau hafi notað brúnlitað vatnið …
Erla María Huttunen segir að þau hafi notað brúnlitað vatnið til að hella í klósettið og skola leirtau. Hún og fjölskylda hennar eru enn að átta sig á ástandinu sem skapaðist eftir flóðin. Samsett mynd

Erla María Huttunen, íslensk kona búsett í Cat­arroja, rétt utan við Valencia, segir að staðan eftir flóðin á svæðinu sé erfið. Hún og fjölskylda hennar hafa verið án vatns og rafmagn verið stopult. Þá sé ekki í hendi hvernig fjölskyldan eigi að afla matvæla sökum þess að ekkert er í verslunum á svæðinu í kringum hana og samgöngur liggja niðri. 

Fyrir framan fjölbýlishús hennar eru enn tugir bíla í hnapp sem flutu eins og korktappar í flóðunum og skelltust saman. Enn hefur ekkert spurst til nágranna hennar en óttast er um að hann hafi fest í bílakjallara þegar flóðið bar að. Borgaraþjónustan er á svæðinu til að pumpa vatni úr bílakjallaranum en Erla óttast hið versta. 

Bílar eru í einum hnapp fyrir utan heimilið.
Bílar eru í einum hnapp fyrir utan heimilið. Ljósmynd/Aðsend

Bílakjallarinn í forgangi 

„Maður er eiginlega að átta sig á þessu núna. Allar samgöngur liggja niðri og allar verslanir eru lokaðar eða búið að tæma allt úr þeim. Fyrir utan er fólk að pumpa úr bílakjallaranum hjá okkur og hefur verið að gera það í 12 klukkustundir. Það var forgangur á bílakjallarann hjá okkur vegna mannsins sem finnst ekki. Síðast þegar sást til hans þá var hann þarna niðri,“ segir Erla.

Hún segir að búist sé við því að maðurinn hafi fest þarna niðri.

„Ef maðurinn hefur tekið bílinn sinn og keyrt eitthvað áður en vatnið kom þá væri hann búinn að dúkka upp núna,“ segir Elín.

Eitthvað gerst í íbúðinni á móti 

Hún segir vatnsleysið vera helsta áhyggjuefnið sem stendur.

„Við fórum niður og sóttum skítugt vatn úti á götu sem við gátum í það minnsta hellt ofan í klósettið og skolað leirtauið með. Það er heitt og gott veður en þá koma meiri flugur vegna ástandsins sem er úti núna. Fyrir utan hjá okkur er eitt drullusvað og þess vegna vildum við í það minnsta skola leirtauið til að skordýrin myndu síður sækja í það,“ segir Erla María.

Erla býr á fimmtu hæð í blokk og að sögn hennar eru nágrannarnir duglegir að hjálpa hver öðrum. Í þann mund sem blaðamaður ræðir við Erlu kemur maður hennar inn um dyrnar og segir henni frá því að viðbragsaðilar séu komnir inn í íbúð í húsi sem stendur á móti húsinu hennar. Eitthvað virðist hafa gerst þar. Höfðu þau einmitt haft það á orði hve skrítið það væri að fólkið sem byggi þar hefði aldrei skotið höfðinu út um gluggann.

„Við sjáum yfirleitt líf inni í íbúðinni. En nú eru komnir sjúkraflutningamenn og slökkviliðsmenn þar inn. Það er eins og eitthvað hafi gerst þar,“ segir Erla María. 

Drykkjarvatn kom í hús 

Erla segir að fjölskyldan eigi einhvern mat en ljóst sé að þau þurfi brátt að fara á stúfana til sækja sér vistir. „Við getum ekki soðið neitt því það er ekkert vatn. Vatnið sem er úti á götu er brúnt og ekki treystandi,“ segir Erla.

En hún ítrekar að þau hafi það ekki slæmt og þó að bílarnir séu ónýtir og óvissa í lofti þá sé það seinni tíma vandamál sem tekið verði á þegar þar að kemur.

Í sama mund kemur maðurinn hennar inn aftur færandi hendi. Nágranni þeirra hafði gefið þeim fimm lítra vatnsdunk.

„Við erum að fá þær upplýsingar að það er fólk að koma frá öðrum bæjum með fulla bíla af vatni, þannig að vonandi fá allir eitthvað vatn til sín til að drekka,“ segir Erla María.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert