„Ég held að þetta verði ekki svo jafnt“

Það eru aðeins þrír dagar þar til Bandaríkjamenn ganga að …
Það eru aðeins þrír dagar þar til Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu. AFP/Jeff Kowalsky og Mandel Ngan

Hinn þaulreyndi kosningaráðgjafi Mark Campbell er ekki svo sannfærður um að fylgismunurinn á milli Kamölu Harris, forsetaframbjóðanda demókrata, og Donalds Trumps, forsetaframbjóðanda repúblikana, sé jafn lítill og opinberar kannanir benda til.

„Allar innherjamælingarnar sem ég hef séð sýna hreyfingu á fylgi til Trumps,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Hann telur aftur á móti að Trump hafi verið hrokafullur á síðustu dögum sem opni á þann möguleika að hann missi sigurinn úr höndum sér.

Mark Campbell.
Mark Campbell. Ljósmynd/Aðsend

Fólk að færa sig til Trumps

Campbell var kosningastjóri Glen Youngkins, ríkisstjóra Virginíu, ásamt því að hafa verið háttsettur [e. Political director] í forsetaframboðum Ted Cruz og Rudy Giuliani. Hann hefur einnig starfað fyrir Bush-feðgana og þá þjálfar hann nú aðra íhaldssama kosningastjóra vestanhafs.

Hann ræddi við mbl.is um forsetakosningarnar sem verða haldnar á þriðjudaginn.

„Ég held að þetta verði ekki svo jafnt en við sjáum til. Þróunin í krosstöflunum sýnir fólk færa sig til Trumps,“ segir hann spurður um kannanir sem benda til þess að það sé mjótt á munum.

Fólk bíði eftir svörum frá Harris

Hann segir að árið 2004 þegar hann starfaði í kosningateymi George Bush yngri hafi útlitið verið svart degi fyrir kjördag en þegar útgönguspár komu út á kjördag þá hafi orðið ljóst að Bush myndi hafa þetta.

Margir kjósendur sögðu að John Kerry, þáverandi forsetaframbjóðandi demókrata, hefði ekki gefið þeim ástæðu til að kjósa hann heldur aðeins sagt þeim af hverju þeir ættu að kjósa gegn Bush.

„Það sem við erum að sjá núna er að fólk er búið að bíða og bíða eftir því að Kamala Harris útskýri hvernig forsetatíð hennar myndi líta út en hún er aðeins að einblína á allt það neikvæða við Trump. Og það er enginn í vestur- eða austurheiminum sem er ekki með á hreinu allar þær áskoranir sem fylgja Trump. En þeir [kjósendur] halda áfram að bíða eftir því að Harris segi „af hverju hún og af hverju núna.“ Hún er í raun ekki að svara þessum spurningum. Hún er þó að verða betri á undanförnum dögum,“ segir hann.

Hann bætir því við að mælingar sýni að frambjóðendur repúblikana til þings séu farnir að styrkja sig í könnunum að undanförnu sem renni stoðum undir það að meðvindurinn sé almennt með repúblikönum.

Hroki af hálfu Trumps

Hafandi sagt það þá segir hann baráttu Trumps ekki vera dans á rósum heldur.

„Það er ákveðinn svona hroki af hálfu Trump-teymisins að halda að þeir geti gert eða sagt nánast hvað sem er án þess að það hafi afleiðingar,“ segir Campbell.

Hann nefnir sem dæmi brandara uppistandarans Tony Hinchcliffe, sem hann sagði á kosningaviðburði Trumps á dögunum, þar sem hann sagði Púertó Ríkó vera ruslaeyju.

Trump hefur ekki fordæmt ummælin almennilega að mati Campbells.

Donald Trump í Wisconsin í gær.
Donald Trump í Wisconsin í gær. AFP

„Þá gæti það sveiflað ríkinu yfir til Harris“

„Það eru yfir 400 þúsund Bandaríkjamenn í Pennsylvaníu ættaðir frá Púertó Ríkó,“ segir hann og bætir við:

„Þannig ef það er mjótt á munum í Pennsylvaníu og helmingurinn af þessu fólki er reitt í garð Trumps, þá gæti það sveiflað ríkinu yfir til Harris. Undir venjulegum kringumstæðum þá ætti þessi barátta ekki að vera jöfn, Trump ætti að vinna langflest sveifluríki og við ættum öll að geta farið í háttinn rétt eftir miðnætti [vitandi úrslitin].

En hann heldur áfram að gera þessi óþvinguðu mistök og leiðréttir þau ekki, sem gæti mögulega gert þessa kosningabaráttu jafnari en hún ætti að vera,“ segir Campbell.

Málefni fóstureyðinga óvissuþáttur

Hann telur að verðbólga á matvörumarkaði síðustu ár sem og staðan í útlendingamálum séu einfaldlega of erfið mál fyrir Harris til þess að hún geti sigrað, en hann segir þó einn óvissuþátt mögulega geta hjálpað Harris. Aðgengi að þungunarrofi. 

Hann útskýrir að í þingkosningunum árið 2022 hafi repúblikanar talið að þeir myndu bæta við sig yfir 40 þingsætum í fulltrúadeildinni en þeir bættu aðeins við sig innan við 10 þingsætum í kosningunum.

„Þannig að það sem enginn veit í rauninni er hvort að ógnin um mögulegt fóstureyðingarbann verði nóg til að vinna gegn öllum hinum málunum sem skipta fólk máli. Ég persónulega held að fóstureyðingabylgjan hafi náð hápunkti og sé á niðurleið, en þetta er vissulega brýnasta málefnið fyrir suma,“ segir hann.

Er þessi málaflokkur hennar besta von til þess að sigra kosningarnar?

„Já, vegna þess að þetta er eina raunverulega tilfinningamálið sem hún er með á sinni hlið.“

Kamala Harris í Georgíu í september.
Kamala Harris í Georgíu í september. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert