Filippus Spánarkonungur og Letizia drottning eru væntanleg á flóðasvæðið í Valencia–héraði í dag ásamt forsætisráðherranum Pedro Sánhez, en hamfaraflóðin sem riðu yfir svæðið fyrr í vikunni hafa kostað 213 mannslíf.
Margra er enn saknað en vonir um að finna fleiri á lífi hafa dvínað fimm dögum eftir verstu flóð á Spáni í áratugi.
Næstum öll dauðsföllin hafa verið í Valencia-héraði, þar sem þúsundir björgunarmanna hafa unnið baki brotnu við leit að fólki ásamt því að hreinsa til eftir hamfarirnar ógurlegu.
Sánhez segir að flóðin séu þau önnur mannskæðustu í Evrópu á þessari öld en mörg þorp og bæir hafa verið án rafmagns og vatns frá því á þriðjudaginn og innviðir á mörgum stöðum eru í rúst.
Yfirvöld hafa sætt harðri gagnrýni fyrir að vara fólk ekki nægilega tímalega við veðrinu og íbúar hafa kvartað yfir því að viðbrögð við hamförunum hafi verið of hæg.
Spænska veðurstofnunin, Aemet, varar við miklu þrumuveðri sem gæti mögulega valdið mikilli rigningu og flóðum á nokkrum stöðum í austurhluta Spánar í dag.
Sums staðar er varað við að allt 100 millimetra úrkomu á tólf klukkustundum.