Endasprettur kosningabaráttunnar í Bandaríkjunum er nú fyrir höndum. Hann er ólíkur hjá forsetaframbjóðendunum tveimur en þó er eitt ríki á lista beggja.
Donald Trump, frambjóðandi repúblikana, lofaði í gær yfirburðasigri og að þar með ætti hann afturkvæmt í Hvíta húsið. Kamala Harris, frambjóðandi demókrata, sagði á sama tíma að skriðþunginn væri hennar megin, en þar með yrði hún fyrsti kvenforseti í nærri 250 ára sögu landsins.
Skoðanakannanir gefa þó flestar hvorugt til kynna. Ef marka má þær þá er ógurlega mjótt á munum, sama hvort litið sé til landsins alls eða sveifluríkjanna sjö þar sem talið er að örlögin verði ráðin.
Pennsylvanía er þar fremst í flokki, með flesta kjörmenn sveifluríkjanna og tvísýnustu úrslitin. Bæði munu þau enda heimsækja ríkið í dag.
Samkvæmt dagskrá Harris mun hún verja þar öllum deginum og ljúka honum á feiknastórum fjöldafundi í stórborginni Philadelphiu, þar sem Lady Gaga kemur fram meðal annarra.
Til marks um hversu mikilvæg Pennsylvanía þykir í baráttunni þá munu Trump og Harris bæði halda fjöldafundi í iðnaðarborginni Pittsburgh.
Hjá Trump hefst dagurinn aftur á móti í Norður-Karólínu, áður en hann fer til Pennsylvaníu og lýkur deginum í Grand Rapids í Michigan.
Fulltrúar beggja framboða hafa sagt mikla kjörsókn utan kjörfundar gefa sér von. Alls hafa fleiri en 78 milljónir manna þegar greitt atkvæði, en það er um helmingur allra greiddra atkvæða í síðustu forsetakosningum árið 2020.
Trump hefur á undanförnum dögum orðið enn óheflaðri í orðræðu sinni þar sem hann sækist eftir sínu öðru kjörtímabili, en það myndi gera hann að fyrsta dæmda afbrotamanninum til að sitja á stóli forseta. Sömuleiðis yrði hann sá elsti í sögu landsins til að hljóta kjör til setunnar.
Harris hefur náð að gera kosningarnar tvísýnar aðeins nokkrum mánuðum eftir að forsetinn Joe Biden dró framboð sitt til baka. Samkvæmt skoðanakönnunum á þeim tíma stefndi allt í mikinn ósigur Bidens.
Harris vonast til að réttur kvenna til þungunarrofs, og ásókn repúblikanaflokksins í að skerða hann, verði ofarlega í huga kjósenda sem muni þá greiða henni atkvæði sitt.
Framboð Trumps hefur á sama tíma reynt að beina athyglinni að innflytjenda- og efnahagsmálum.
Trump sjálfur hefur þó að einhverju leyti stolið þeirri athygli með ýmsum ummælum, svo sem með því að kalla pólitíska andstæðinga „óvininn að innan“.
Á framboðsfundi í gær sagði Trump að það væri sér að meinalausu ef blaðamenn yrðu skotnir.
Þá hafði hann enn á ný uppi staðlausar ásakanir um kosningasvindl og reifaði í blóðugum smáatriðum glæpi sem óskráðir innflytjendur hefðu framið.
„Kamala – þú ert rekin, hypjaðu þig,“ sagði Trump við fagnaðarlæti stuðningsmanna í Macon í Georgíuríki.
Þá sagði forsetinn fyrrverandi að hann hefði ekki átt að yfirgefa Hvíta húsið, sem hann gerði eftir að hann tapaði fyrir Joe Biden í kosningunum árið 2020.
Sá uggur sækir nú sífellt meir að fólki, að hann muni eins og þá neita að viðurkenna ósigur.