„Ég held að okkur takist þetta“

Pat segir verðbólgu og innflytjendamál vera í brennidepli kosninganna. Raunar …
Pat segir verðbólgu og innflytjendamál vera í brennidepli kosninganna. Raunar telur hún móttöku innflytjenda eiga sinn þátt í hækkandi verðbólgu. mbl.is/Hermann Nökkvi

Pat Poprick, einn kjörmanna Pennsylvaníuríkis og formaður í framkvæmdastjórn repúblikana í Bucks-sýslu í Pennsylvaníuríki, kveðst styðja Donald Trump frambjóðanda repúblikana heilshugar í forsetakosningunum.

„Ég tel hann vera besta möguleikann á því að koma okkur út úr þeirri klemmu sem við höfum komið okkur í,“ segir hún.

Blaðamaður náði tali af Pat í höfuðstöðvum repúblikana í Bucks-sýslu í Pennsylvaníuríki.

Harris boði breytingar til hins verra

Hún segir verðbólgu og innflytjendamál vera í brennidepli kosninganna. Þá telur hún straum ólöglegra innflytjenda til Bandaríkjanna eiga sinn þátt í hækkandi verðbólgu.

„Þessi mikli straumur flóttamanna sem við erum að borga fyrir, allt frá hótelherbergjum, mat og síma, stuðlar að hækkandi verðbólgu,“ segir hún.

Pat kveðst hafa góða tilfinningu fyrir kosningunum.

„Ég held að okkur takist þetta. Það eru svo margir ósáttir við ástandið og hún (Kamala Harris) býður ekki upp á breytingar eða öllu heldur breytingar til hins verra, enda er hún frjálslyndari en Biden.“

mbl.is/Hermann Nökkvi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert