Hafa lengri tíma til að kjósa vegna tæknivandamála

Norður-Karólína er sveifluríki. Eiga flestir kjörstaðir að loka klukkan hálfátta.
Norður-Karólína er sveifluríki. Eiga flestir kjörstaðir að loka klukkan hálfátta. AFP/Melissa Sue Gerrits

Kjörstjórn Norður-Karólínu hefur ákveðið að lengja opnunartíma á tveimur kjörstöðum í ríkinu í kvöld um hálftíma. 

Bandaríkjamenn velja sér nýjan forseta í dag. Kjörstaðir áttu allir að loka klukkan hálfátta í kvöld, eða klukkan hálfeitt um nótt að íslenskum tíma, í ríkinu.

Í umfjöllun CNN segir að kjósendur hafi tímabundið ekki getað greitt atkvæði á kjörstöðunum tveimur í dag vegna tæknilegra örðugleika. Kjörstjórnin í ríkinu hélt neyðarfund og ákvað að lengja opnunartímann.

Fartölva og prentari sökudólgarnir

Tveir kjörstaðir, annar í Burke-sýslu og hinn í Wilson-sýslu, verða því opnir kjósendum til klukkan átta í kvöld að staðartíma.

Á kjörstaðnum í Wilson-sýslu varð að loka kjörklefunum í klukkustund vegna bilunar í prenturum fyrr í dag.

Þá kom upp tæknilegt vandamál í fartölvu sem orsakaði tafir á kjörstað í Burke-sýslu.

Norður-Karólína er eitt af sveifluríkjunum sjö. Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana, er talinn sigurstranglegri en Kamala Harris, forsetaframbjóðandi demókrata, í því ríki en brugðið gæti til beggja vona. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert