Húsleitir hjá Netflix í París og Amsterdam

Vegfarandi sést hér ganga fram hjá höfuðstöðvum Netflix í París, …
Vegfarandi sést hér ganga fram hjá höfuðstöðvum Netflix í París, höfuðborg Frakklands, í dag. AFP

Frönsk og hollensk yfirvöld framkvæmdu í dag húsleitir á skrifstofum streymisveitunnar Netflix í París, höfuðborg Frakklands, og í Amsterdam, höfuðborg Hollands. Aðgerðirnar tengjast rannsókn á meintum skattsvikum, að því er heimildir AFP-fréttaveitunnar herma.

Þá kemur fram að starfsmenn efnahagsbrotadeildar lögreglunnar í Frakklandi hafi framkvæmt leitir víðar í Frakklandi í tengslum við málið. Grunur leikur líka á að fólk hafi reynt að hylma yfir meint svik, en heimildarmaður AFP segir að rannsóknin teygi anga sína til ársins 2022. 

Rannsókn yfirvalda í Frakklandi og í Hollandi beinast að höfuðstöðvum Netflix í Evrópu, sem eru staðsettar í Amsterdam, en einnig að starfseminni í Mið-Austurlöndum og í Afríku. 

Saksóknarar í Hollandi hafa staðfest að farið hafi verið í húsleitir með aðstoð franskra yfirvalda. 

Rannsókin í Frakklandi tengist skattskilum Netflix þar í landi árin 2019, 2020 og 2021. 

Talsmaður Netflix hefur ekki tjáð sig um málið. 

Streymisveitan sagði í fyrra, eftir að greint var frá því í fjölmiðlum að verið væri að rannsaka starfshætti Netflix, að fyrirtækið hefði framfylgt skattalögum í öllum löndum þar sem fyrirtækið er með starfsemi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert