Bjarni Benediktsson hefur óskað bandaríska forsetaframbjóðandanum Donald Trump til hamingju með sigurinn, en líklegt þykir að Trump hafi unnið forsetakosningarnar sem fram fóru í Bandaríkjunum í nótt.
Þjóðarleiðtogar hinna Norðurlandanna hafa einnig sent frambjóðandanum kveðjur.
„Til hamingju [Trump] með sigurinn í bandarísku kosningunum. Bandaríkin eru sterkasti bandamaður Íslands og stærsti viðskiptaaðili. Ég hlakka til að vinna með Trump-stjórninni að því að efla okkar langa samband sem vinir og bandamenn,“ skrifar Bjarni á X, áður Twitter.
Auk leiðtoga Norðurlandanna hafa Volodimír Selenskí Úkraínuforseti, Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, óskað Trump til hamingju.
„Til hamingju með kosningarnar, Donald Trump,“ skrifar Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, í yfirlýsingu sem birtist á vef danska forsætis ráðuneytisins í morgun. „Bandaríkin eru mikilvægustu bandamenn okkar.“
Í því samhengi nefnir Frederiksen sérstaklega alþjóðasamvinnu til að takast á við ógnir á borð við Rússland. „Það á sérstaklega við í Úkraínu, þar sem þörf er á að halda áfram okkar stuðningi við þeirra frelsisbaráttu. Þannig yrði það ekki mögulegt fyrir Rússa að halda áfram stríðinu í Úkraínu.“
Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, sendir forsetaframbjóðandanum kveðjur á X. „Ég óska [Donald Trump] til hamingju með að vera kjörinn næsti forseti Bandaríkjanna. Ég hlakka til að vinna saman og halda áfram frábæru sambandi Bandaríkjanna og Svíþjóðar sem vinir og bandamenn.“
Einnig óskar Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, Trump til hamingju.
„Fyrir hönd norsku ríkisstjórnarinnar vil ég óska Donald Trump til hamingju með sigurinn í forsetakosningunum,“ skrifar Støre á X, og tekur einnig fram að Bandaríkin séu mikilvægustu bandamenn Norðmanna.
Alexander Stubb, forseti Finnlands, hefur einnig óskað Trump til hamingju. „Ég hlakka til að vinna náið með þér og þinni ríkisstjórn og takast á við þær mikilvægu áskoranir samtímans. Finnland og Bandaríkin eru nánir bandamenn á fjölda sviða, þeirra á meðal eru öryggi, tækni og viðskipti.“