Obama óskar Trump til hamingju

Obama var stuðningsmaður Kamölu Harris.
Obama var stuðningsmaður Kamölu Harris. AFP/Spencer Platt

Barack Obama fyrrverandi Bandaríkjaforseti hefur óskað Donald Trump til hamingju með sigurinn í kosningunum. Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér ítrekar hann mikilvægi þess að valdaskiptin fari fram með friðsamlegum hætti. 

Obama lýsti opinberlega yfir stuðningi við Kamölu Harris og kom fram á fjölda kosningafunda með henni í aðdraganda kosninganna. 

„Þetta er augljóslega ekki niðurstaðan sem við höfðum vonast eftir. En að lifa í lýðræðisríki snýst um að viðurkenna að sjónarmið okkar skila ekki alltaf sigri, og þá verðum við að vera viljug til að samþykkja friðsamleg valdaskipti,“ sagði Obama. 

Harris hringdi í Trump  

Harris ávarpaði almenning í fyrsta skipti í kvöld eftir að Trump var kjörinn forseti. Hún undirstrikaði að nauðsynlegt væri að virða niðurstöður kosninga.

Fyrr í dag óskaði hún Trump til hamingju með sigurinn símleiðis. Þá fullvissaði hún hann um að valdaskiptin færu friðsamlega fram ólíkt því sem Trump gerði árið 2021 þegar Joe Biden Bandaríkjaforseti tók við völdum. 

Trump verður formlega settur í embætti forseta Bandaríkjanna 20. janúar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka