„Við verðum að virða niðurstöðu kosninganna“

Kamala Harris sagði sér og öðrum bera skylda til að …
Kamala Harris sagði sér og öðrum bera skylda til að samþykkja niðurstöðu kosninganna. AFP

Varaforseti Bandaríkjanna, Kamala Harris, ávarpaði í dag almenning í fyrsta sinn eftir að Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna.

Í ræðu sinni kvaðst Harris hafa óskað andstæðingi sínum til hamingju með sigurinn. Ávarpið flutti Harris fyrir framan Howard-háskólann í Washington, en hún útskrifaðist sjálf þaðan fyrir tæpum 30 árum.

Harris sagði baráttuna stundum taka tíma. Það þýddi ekki að …
Harris sagði baráttuna stundum taka tíma. Það þýddi ekki að sigur væri útilokaður. AFP/Justin Sullivan

Ber ekki skylda til að heita hollustu við forseta

„Við verðum að virða niðurstöðu kosninganna,“ sagði Harris og bætti við að það væri undirstaða lýðræðis og það sem skilji lýðræði frá einveldi og einræði.

Kvaðst hún hafa fullvissað Trump um að hún myndi aðstoða hann og teymi hans við friðsamleg valdaskipti, en Trump gerði ekki hið sama fyrir Joe Biden Bandaríkjaforseta árið 2021.

„Sem þjóð ber okkur ekki skylda til að heita hollustu við forseta eða stjórnmálaflokk, heldur við stjórnarskrá Bandaríkjanna og við samvisku okkar og Guð,“ sagði Harris.

„Hollusta mín við öll þrjú er ástæðan fyrir því að ég játa mig sigraða í þessum kosningum, en ég játa mig ekki sigraða í baráttunni sem dreif þessa kosningaherferð mína áfram.“

Harris kvaðst ekki ætla að gefast upp í baráttunni um …
Harris kvaðst ekki ætla að gefast upp í baráttunni um jafnrétti og rétt kvenna til að ráða yfir eigin líkama. AFP

„Hjarta mitt er fullt“

Þakkaði Harris fjölskyldu sinni og ástvinum, varaforsetaefni sínu Tim Walz og forseta Bandaríkjanna, Joe Biden, ásamt fjölskyldum þeirra og öllum sem að framboðinu og kosningunum komu.

„Hjarta mitt er fullt í dag. Fullt af þakklæti fyrir traustið sem þið hafið veitt mér. Fullt af ást fyrir landinu okkar og fullt af ákveðni. Þetta eru ekki niðurstöðurnar sem við vildum, ekki það sem við börðumst fyrir, ekki það sem við börðumst fyrir,“ sagði Harris.

„En ljós velmegunar Bandaríkjanna mun ávallt skína skært, svo lengi sem við gefumst ekki upp og höldum áfram að berjast.“

Ella Emhoff, stjúpdóttir Kamölu Harris, komst við er stjúpmóðir hennar …
Ella Emhoff, stjúpdóttir Kamölu Harris, komst við er stjúpmóðir hennar ávarpaði stuðningsfólk sitt. AFP

Gefst ekki upp

Kvaðst hún ekki ætla að gefast upp í baráttunni um jöfn réttindi fyrir alla í Bandaríkjunum þar sem Bandaríkjamenn geti fylgt draumum sínum og markmiðum og konur geti ráðið yfir eigin líkama án afskipta yfirvalda.

Talaði hún einnig til ungra stuðningsmanna sinna og sagði að allt yrði í lagi og hvatti þá til að gefast ekki upp. Nú væri ekki tíminn til að henda inn handklæðinu.

„Stundum tekur baráttan smá tíma, en það þýðir ekki að við vinnum ekki,“ sagði Harris og gekk út við undirleik lagsins Freedom eftir Beyonce.

Margir voru komnir saman til að hlýða á Harris við …
Margir voru komnir saman til að hlýða á Harris við Howard-háskóla í Washington. AFP/Brandon Bell
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka