Biden heitir friðsamlegum valdaskiptum

Joe Biden Bandaríkjaforseti ávarpaði þjóðina frá Hvíta húsinu í dag.
Joe Biden Bandaríkjaforseti ávarpaði þjóðina frá Hvíta húsinu í dag. AFP/Andrew Harnik

Joe Biden Bandaríkjaforseti hét því í ávarpi sínu í dag að valdaskiptin 20. janúar muni fara friðsamlega fram.

Biden ávarpaði þjóðina frá Hvíta húsinu í dag. 

„Eitt sem ég vona að við getum gert, sama hvern þið kusuð, er að við lítum á hvort annað sem samlanda, ekki andstæðinga,“ sagði Biden meðal annars. 

Hann kvaðst hafa hringt í Donald Trump, nýkjörinn forseta, og óskað honum til hamingju. Hann hafi líka sagt honum að valdaskiptin myndu fara friðsamlega fram. 

Hvatti kjósendur til að missa ekki vonina

Biden hvatti líka kjósendur demókrata til að missa ekki vonina þó Trump hafi verið kjörinn forseti, jafnvel þó margir spekingar telji að Trump muni reyna að ógilda fjölda löggjafa sem Biden kom í gegn í sinni forsetatíð. 

Forsetinn hefur boðið Trump til Hvíta hússins, en það væri þá í fyrsta skipti sem Trump og Biden hittast í persónu síðan þeir tókust á í kappræðunum í sumar, ekki löngu áður en Biden ákvað að gefa ekki kost á sér í forvali demókrata. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka