Blinken flýgur á fund NATO og ESB

Antony Blinken á ferðinni.
Antony Blinken á ferðinni. AFP

Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna flýgur í dag til Brussel til að ræða við stjórnvöld Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins um stuðning við Úkraínu gegn innrás Rússlands.

Frá þessu greindi talsmaður ráðuneytisins, Mark Miller, í yfirlýsingu nú fyrir stundu.

Vika er liðin frá því Bandaríkjamenn gengu til kosninga og völdu að fyrrverandi forsetinn Trump skyldi aftur snúa í Hvíta húsið.

Ítrekað lofað Pútín

Trump hefur ítrekað lofað Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Aðstoð við Úkraínu, sem metin er á 175 milljarða bandaríkjadala, hefur einnig vaxið honum í augum.

Hann hefur sagst geta bundið enda á stríðið á einum degi, líklega með því að neyða Úkraínu til að láta undan. Mike Waltz, nýútnefndur þjóðaröryggisráðgjafi forsetans, hefur þó sagt að Trump gæti einnig beitt Pútín þrýstingi.

Dagblaðið Washington Post hefur þegar greint frá því að Trump hafi rætt við Pútín símleiðis eftir kosningarnar og reynt að fá hann til að magna ekki stríðsreksturinn upp á annað stig. Þessu hefur verið neitað í Kreml.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert