Biden bauð Trump í heimsókn

Joe Biden og Donald Trump munu ræða málin í Hvíta …
Joe Biden og Donald Trump munu ræða málin í Hvíta húsinu í dag. AFP

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, mun eiga fund með Joe Biden Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu í dag. Þetta verður fyrsta heimsókn Trumps í Hvíta húsið í fjögur ár. 

Trump hefur haft í nógu að snúast undanfarna daga við að skipa í æðstu embætti næstu ríkisstjórnar. Þar mun m.a. Elon Musk, ríkasti maður í heimi, eiga sæti sem yfirmaður teymis sem er ætlað það hlutverk að draga verulega úr ríkisútgjöldum. 

Biden bauð Trump til fundarins, sem fer fram á skrifstofu forsetans klukkan 11 að staðartíma í Washington (kl. 16 að íslenskum tíma). Búist er við að Biden muni leggja áherslu á að valdaskiptin fari hnökralaust og friðsamlega fram, auk þess sem Biden er sagður ætla að leggja áherslu á að Bandaríkin haldi áfram að styðja við bakið á Úkraínu. 

„Hann hefur trú á hefðunum. Hann treystir okkar stofnunum,“ segir Karine Jean-Pierre, talskona Hvíta hússins, við blaðamenn þegar hún var spurð af hverju Biden hefði boðið Trump í heimsókn. 

„Bandaríska þjóðin á þetta skilið. Hún á það skilið að valdaskiptin fari friðsamlega fram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka