Saksóknarar í Frakklandi krefjast fimm ára fangelsis yfir Marine Le Pen, leiðtoga róttæka hægriflokksins Þjóðfylkingarinnar, þar sem hún er sökuð um fjárdrátt úr sjóðum Evrópuþings.
Le Pen og rúmlega 20 aðrir eru sakborningar í málinu. Le Pen er gefið að sök að hafa ráðið aðstoðarmenn til sín sem áttu að vinna með þingflokki Þjóðfylkingarinnar á Evrópuþingi. En saksóknarar halda því fram að aðstoðarmennirnir, sem fengu greitt úr sjóði Evrópuþingsins, hafi einvörðungu unnið störf í þágu flokksins utan þings.
Hin 56 ára Le Pen neitar ásökununum. Hún hefur áður sagst ætla að fara í forsetaframboð árið 2027 en hún hefur þegar boðið sig fram þrisvar. Saksóknarar krefjast þess að hún verði bönnuð frá opinberum embættisstörfum og sæti fimm ára fangelsisvist en tvö ár gætu orðið skilorðsbundin. Því gæti hún þurft að kveðja forsetadrauminn fyrir fullt og allt.
Þess er einnig krafist að starfsmennirnir 24 verði líka bannaðir frá opinberum embættisstörfum.
Þá vill saksóknari einnig sekta Þjóðfylkinguna um tvær milljónir evra, eða 295 m.kr. Le Pen neitaði ásökununum strax og kallaði málið hneyksli. Hún sakaði saksóknarana um að reyna að „eyðileggja flokkinn“.
„Ég held að vilji saksóknaranna sé að svipta frönsku þjóðina þeim möguleika á að kjósa þann sem hún vill,“ sagði hún en Þjóðfylkingin, sem og önnur róttæk hægriöfl í Evrópu, hlaut mikinn stuðning í kosningum til Evrópuþings í júní.
Málið kom fyrst upp á yfirborðið árið 2015 en það varðar starfssamninga sem gerðir voru á árunum 2004-2016. Saksóknarar segja að aðstoðarmennirnir hefðu einvörðungu starfað fyrir flokkinn utan þingsins.