Pete Hegseth, þáttastjórnandi hjá bandarísku sjónvarpsstöðinni Fox News, verður næsti varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Hegseth, sem er 44, ára, er rithöfundur og fyrrverandi hermaður sem starfaði í Írak og Afganistan.
Hann gekk til liðs við Fox News árið 2014 og er einn af þáttastjórnendum Fox and Friends Weekends á Fox News, auk þess sem hann stjórnar þætti á Fox Nation.
Hegseth var sagður koma til álita sem ráðherra fyrrverandi hermanna þegar Donald Trump var fyrst kjörinn Bandaríkjaforseti en ekkert varð af því.
Núna er hann aftur á móti sagður á leiðinni í Pentagon til að stjórna stærsta her veraldar.
Trump sagði í tilkynningu að Hegseth væri „harður í horn að taka og trúir á Ameríku númer eitt“.
„Með Peter við stjórnvölinn þurfa óvinir Banaríkjanna að vara sig. Herinn okkar verður frábær aftur og Bandaríkin munu aldrei gefa eftir,“ sagði Trump.