„Velkominn til baka“

Biden er sagður hafa hvatt Trump til að halda áfram …
Biden er sagður hafa hvatt Trump til að halda áfram hernaðaraðstoð Bandaríkjanna við Úkraínu en Trump hefur gefið það í skyn að hann hyggist binda enda á aðstoðina. AFP/Saul Loeb

Donald Trump nýkjörinn Bandaríkjaforseti þakkaði Joe Biden sitjandi Bandaríkjaforseta fyrir að heita hnökralausum valdaskiptum þegar Trump tekur við embættinu í annað sinn í janúar. Trump gekk á fund Bidens í Hvíta húsinu í dag þar sem þeir tókust í hendur. „Velkominn til baka,“ sagði Biden þegar hann mætti mótherja sínum í kosningunum 2020.

Fram til ársins 2020 hafði verið hefð fyrir því að sitjandi forseti boðaði nýkjörinn forseta á fund sinn í Hvíta húsinu þar sem þeir myndu ræða valdaskiptin. Trump vék frá þeirri hefð þegar hann dró niðurstöður kosninganna í efa það árið og neitaði að setjast á fund með Biden.

Indæl stjórnmál

Biden er sagður hafa hvatt Trump til að halda áfram hernaðaraðstoð Bandaríkjanna við Úkraínu en Trump hefur gefið það í skyn að hann hyggist binda enda á aðstoðina.

Áður en Trump sótti fund Bidens ræddi hann við repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings þar sem hann gantaðist með möguleikann á að bjóða sig fram í þriðja sinn, en í 22. viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna er kveðið á um að forsetar megi ekki sitja lengur í forsetastól en tvö kjörtímabil og að ekki megi kjósa sama frambjóðandann oftar en tvisvar í embættið.

„Stjórnmál eru erfið og eru oft ekki mjög indæll heimur. Í dag er heimurinn indæll og ég kann mjög að meta það,“ sagði Trump á fundi þeirra Biden.

Jill Biden forsetafrú var viðstödd komu Trumps og afhenti honum bréf með hamingjuóskum. Eiginkona Trumps, Melania Trump, var aftur á móti ekki viðstödd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert