Donald Trump, tilvonandi og fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hyggst skipa Robert F. Kennedy yngri, fyrrum mótframbjóðanda sinn, í stöðu heilbrigðisráðherra.
„Of lengi hafa Bandaríkjamenn verið niðurbarðir af matvælaiðnaðinum og lyfjafyrirtækjum sem hafa beitt blekkingu, dreift falsupplýsingum og rangfærslum þegar kemur að lýðheilsu,“ sagði Trump í yfirlýsingu.
Kvaðst hann ánægður með val sitt á Kennedy sem hann væri fullviss um að myndi „gera Bandaríkin heilsuhraust á ný.“
Kennedy er úr einni þekktustu demókratafjölskyldum Bandaríkjanna en hann er sonur Robert F. Kennedy eldri, dómsmálaráðherra og öldungadeildarþingmanns, og bróðursonur fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, John F. Kennedys heitins.
Bauð hann sig sjálfur fram til embættis forseta sem óháður frambjóðandi en lýsti yfir stuðningi við Trump í ágúst. Kennedy er umhverfislögfræðingur að mennt og er þekktur fyrir umdeildar skoðanir sínar og efasemdir um bólusetningar.
Er Kennedy einnig þekktur fyrir ýmsar furðulegar sögur af sjálfum sér en til að mynda birti hann tíst á samfélagsmiðlinum X þar sem hann sagði lækna hafa fundið orm í heilanum á sér.
Þá blöskraði mörgum frásögn hans af því að hafa sagað höfuðið af strönduðum hval með vélsög og fyrir að hafa fleygt hræi bjarnsunga í Central Park í New York, eftir að unginn hafði orðið fyrir bíl.