Lögreglan verður með gríðarlegan viðbúnað í París fyrir leik Frakklands og Ísraels í Þjóðadeild karla í fótbolta í kvöld.
Fjögur þúsund lögreglumenn og öryggissveitamenn verða að störfum víðs vegar um París og fyrir utan leikvanginn Stade de France. Lögreglan verður einnig til taks inni á leikvanginum, sem gerist sjaldan.
Sérsveit frönsku lögreglunnar mun passa upp á ísraelska landsliðið á leið þess til og frá leikvanginum og 1.600 manns til viðbótar úr röðum almennra borgara verða á öryggisvakt á meðan á leiknum stendur.
Aðeins er búist við því að um 13 þúsund áhorfendur verði á leiknum, að sögn innanríkisráðherra Frakklands, Bruno Retailleau. Alls tekur leikvangurinn 80 þúsund manns í sæti.
Í síðustu viku var ráðist á ísraelska stuðningsmenn í Amsterdam í Hollandi eftir leik Maccabi Tel Aviv og Ajax í Evrópudeildinni.
Lögreglustjórinn í París segir leikinn á State de France í kvöld vera „mjög áhættusaman“ og hefur hann hvatt stuðningsmenn til að forðast leikinn af ótta við að svipaðir hlutir gerist og í síðustu viku. Femke Halsema, borgarstjóri Amsterdam, kallaði þann leik „eitraðan kokteil“ gyðingaandúðar.
Hollenska lögreglan sagði að ofbeldið hefði byrjað eftir að stuðningsmenn Maccabi kveiktu í palestínskum fána kvöldið áður og eyðilögðu leigubíl.
Í gærkvöldi tóku þúsundir manna þátt í mótmælagöngu í París vegna hátíðarkvöldverðar undir yfirskriftinni „Ísrael er að eilífu“ sem þjóðernisöfl langt til hægri skipulögðu.
Mótmælendurnir veifuðu palestínskum fánum og kveiktu á rauðum blysum. Átök brutust út á milli þeirra og lögreglunnar, sem beitti táragasi.