Eiginkona rússneska ljóðskáldsins Artyom Kamardin óttast um líf hans í fangelsi eftir að honum var kynferðislega misþyrmt með handlóði við handtöku hans.
Kamardin var upphaflega handtekinn árið 2022 fyrir upplestur ljóðs sem gagnrýndi innrás Rússa í Úkraínu.
Ljóðið las hann upphátt á torgi í Moskvu þar sem andófsmenn hafa gjarnan safnast saman frá því seint á fimmta áratugnum.
Ljóðið sem ber heitið: Dreptu mig vígamaður! er frá árinu 2015 og er harðort í garð rússneskra aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.
Ljóðlesturinn átti sér stað nokkrum dögum eftir að Vladimír Pútín tilkynnti að rússneskar hersveitir skyldu að hluta til virkjaðar, í fyrsta sinn síðan í annarri heimsstyrjöld.
Hlaut Kamardin dóm í desember árið 2023 fyrir að efla á hatri og ógna þjóðaröryggi. Var hið 23 ára ljóðskáld Yegor Shtovba einnig dæmt í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir að hlýða á upplesturinn.
Alexandra Popova, eiginkona Kamardin, óttast hið versta og segir eiginmann sinn hljóta sömu meðferð og væri hann úkraínskur stríðsfangi, af hálfu fangavarðanna.
Urðu hjónin bæði fyrir grófum barsmíðum og niðurlægingum daginn sem rússneskar öryggissveitir réðust inn á heimili þeirra, sama dag og Kamardin hafði lesið upp ljóðið á torginu.
Var honum misþyrmt með handlóði að sögn Popova sem segir öryggissveitarmenn hafa tekið atvikið upp á síma sína. Næst hafi hann verið þvingaður niður á kné og látinn biðjast afsökunar á myndbandsupptöku.
„Það var mikið blóð,“ segir Popova sem segir öryggissveitarmennina einnig hafa hótað að hópnauðga sér.
Á einum tímapunkti hafi þeir læst sig inni í herbergi með henni og þóst ætla að draga niður um sig buxurnar. Þeir hafi ítrekað kallað þau hjónin nasista.
Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa sagt lýsingar á handtöku og pyntingum á Kamardin vera hræðilegar, meira að segja miðað við ömurlega mannréttindastaðla Rússlands.
Popova hvetur vestræn stjórnvöld til að beita sér fyrir frelsun rússneskra stjórnmálafanga og hrósar lausn 16 rússneskra andófsmanna og erlendra ríkisborgara í fangaskiptum í sumar. Slíkt úrræði gæti bjargað lífi eiginmanns hennar.
„Þetta er fólkið sem mótmælir því sem er að gerast í dag og þau setja líf sitt og heilsu að veði til að standa með skoðunum sínum.“