Þóttist vera bjarndýr til að svíkja út tryggingar

Bjarnarbúningurinn sem fannst á heimili fjórmenninganna.
Bjarnarbúningurinn sem fannst á heimili fjórmenninganna. AFP

Fjórir einstaklingar hafa verið handteknir fyrir að hafa lagt fram falskar tryggingarkröfur um tjón á lúxusbifreiðum af völdum bjarndýrs. Bjarnarbúningur fannst á heimili hinna grunuðu.

Höfðu þau sent tryggingafélagi myndbandsupptöku úr eftirlitsmyndavél þar sem bjarndýr virðist klifra inn í Rolls Royce-bifreið og hnoðast í honum í um 30-45 sekúndur, detta svo aftur út um opna farþegahurð og ganga leiðar sinnar.

Myndir af skemmdunum sem fylgdu tryggingakröfunni sýndu klórför á leðursætum og leðurfóðri á hurð.

Líffræðingur: Greinilega um björn að ræða

Starfsmönnum Tryggingastofnunar Kaliforníu-ríkis þótti myndskeiðið heldur dularfullt og réðust í kjölfarið í húsleit þar sem þeir fundu bjarnarbúninginn.

Til að staðfesta að myndefnið sýndi í raun manneskju en ekki bjarndýr leitaði stofnunin á ráð Fiska- og dýralífsstofnunar Kaliforníu. Gat dýralíffræðingur stofnunarinnar staðfest með vissu að um væri að ræða manneskju í bjarnargervi.

Einstaklingarnir fjórir voru handteknir í kjölfarið og hafa verið ákærðir fyrir að svíkja út tryggingar upp á tæpa 142 þúsund dollara eða tæpar 20 milljónir íslenskra króna.

Höfðu fjórmenningarnir beitt sömu brellu þar sem þeir tilkynntu öðrum tryggingarfélögum um sams konar tjón á tveimur Mercedes-bifreiðum.

Myndbandið af „bjarndýrinu“ má sjá hér fyrir neðan ásamt myndum af tjóninu.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert