Rússneskir stjórnmálamenn hafa brugðist ókvæða við fregnum um að Joe Biden Bandaríkjaforseti hefði leyft Úkraínumönnum að nota langdrægar eldflaugar á rússneskri grundu.
Rússneski þingmaðurinn Leonid Slutsky, leiðtogi frjálslyndra demókrata í Rússlandi, spáði því að þetta myndi „tvímælalaust leiða til alvarlegrar stigmögnunar“ og að afleiðingarnar gætu orðið alvarlegar.
Vladimir Dzhabarov öldungadeildarþingmaður sagði þessa ákvörðun vera „fordæmalaust skref í átt að þriðju heimsstyrjöldinni“, að því er BBC greindi frá.
Vladimir Pútín Rússlandsforseti hefur enn ekki tjáð sig um tíðindin. Á undanförnum mánuðum hafa rússnesk stjórnvöld þó varað Vesturlönd við því að leyfa Úkraínumönnum að nota eldflaugarnar. Í september sagði Pútín að ef þetta gerðist myndu Rússar líta á það sem „beina þátttöku“ NATO-ríkja í stríðinu í Úkraínu.