75 ára gamall karlmaður var stunginn til bana með hnífi í bænum Frederiksværk á Sjálandi í Danmörku í nótt og hefur 62 ára gömul kona sem deildi sama heimilisfangi með manninum verið handtekin, grunuð um morð.
Danska ríkisútvarpið, DR, greinir frá þessu en Nick Jensen, vaktstjóri hjá lögreglunni á Sjálandi, staðfestir þetta í samtali við Ritzau-fréttastofuna.
„Við vitum að fórnarlambið og gerandinn þekktust en við vitum ekki enn tilefni morðsins,“ segir Jensen, en lögreglunni barst tilkynning um málið laust eftir miðnætti í nótt. Maðurinn var úrskurðaður látinn á vettvangi en konan sem er grunuð um morðið lét lögreglu vita.