Þekktur ástralskur útvarpsmaður, Alan Jones, hefur verið ákærður fyrir fjölda kynferðisbrota, að sögn lögreglunnar í landinu.
Rannsókn hefur staðið yfir á meintum brotum hans.
Jones, sem er 83 ára, er þekktur víðs vegar um Ástralíu fyrir spjallþætti sína í útvarpinu. Einnig þjálfaði hann á sínum tíma ástralska ruðningslandsliðið, skrifaði ræður fyrir forsætisráðherra landsins og kenndi við einn virtasta skóla Ástralíu.
Jones var handtekinn á heimili sínu í morgun á sama tíma og gerð var húsleit þar.
Hann er sakaður um 24 brot gegn átta meintum fórnarlömbum á árunum 2001 til 2019, að sögn lögreglunnar í Nýju Suður-Wales. Á meðal þeirra var fólk sem starfaði hjá honum. Jones neitaði fyrri ásökunum á hendur sér sem birtust í blaðinu Sydney Morning Herald seint á síðasta ári.