Elta kínverskt skip vegna rofs á sæstrengjum

Skip danska sjóhersins hjó eftir ferðum kínverska skipsins og veitti …
Skip danska sjóhersins hjó eftir ferðum kínverska skipsins og veitti því eftirför á leið sinni frá Eystrasaltinu. AFP/Heikki Saukkomaa

Grunur er uppi um að kínverskt skip hafi átt hlut í rofi sæstrengja í Eystrasalti. Þetta herma heimildir sænska ríkismiðilsins SVT.

Skipið sem um ræðir var á leið frá rússneskri höfn í Eystrasaltinu á svipuðum tíma og strengirnir rofnuðu.

Greint var frá því í gær að sæstrengir á milli Finnlands, Þýskalands, Svíþjóðar og Litháen hefðu rofnað. Talið er að skorið hafi verið á strengina vísvitandi.

Veita skipinu eftirför

Skip danska sjóhersins hjó eftir ferðum kínverska skipsins og veitti því eftirför á leið sinni úr Eystrasaltinu og um Kattegat.

Fleiri skip á vegum Atlantshafsbandalagsins hafa fylgst með ferðum skipsins síðasta rúma sólarhringinn.

Heimildir SVT herma að yfirvöld í Svíþjóð fylgist einnig grannt með skipinu sem um ræðir en þau hafa ekki viljað tjá sig um skipið að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert