„Mikið áhyggjuefni“

Frá lagningu C-Lion1-sæstrengsins í október árið 2015.
Frá lagningu C-Lion1-sæstrengsins í október árið 2015. AFP

„Þetta er mjög mikið áhyggjuefni og það er mikilvægt að komast nákvæmlega að því hvað gerðist.“

Þetta segir Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs, í viðtali við norska ríkisútvarpið, nrk, þegar hann var spurður út í rof á sæstrengjunum í Eystrasalti.

Eide segir rof á sæstreng vera mjög alvarlegt atvik og honum er umhugað að komast til botns í málinu. Í viðtalinu er hann varkár í yfirlýsingum sínum um hugsanlegt skemmdarverk á strengjunum.

Heimildir sænska ríkismiðilsins SVT herma að grunur leiki á að kínverskt skip hafi átt hlut í rofi sæstrengjanna en skipið sem um ræðir var á leið frá rússneskri höfn í Eystrasaltinu á svipuðum tíma og strengirnir rofnuðu.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, segir í viðtali við Ritzau-fréttastofuna að það komi henni ekki á óvart að um skemmdarverk hafi verið að ræða.

„Ef matið er núna að um skemmdarverk hafi verið að ræða þá er það augljóslega alvarlegt og ég er ekki hissa á því að það hafi gerst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka