Fólk sem Trump útnefndi fékk sprengjuhótanir

Donald Trump fyrr í mánuðinum.
Donald Trump fyrr í mánuðinum. AFP/Brandon Bell

Hópur fólks sem Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, hefur útnefnt sem ráðherra í ríkisstjórn sinni, fékk sprengjuhótanir fyrr í vikunni.

Bandaríska alríkislögreglan, FBI, greindi frá þessu.

Lee Zeldin, sem Trump útnefndi til að leiða umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna, sagðist hafa fengið rörasprengjuhótun með skilaboðum hliðhollum Palestínu.

Verðandi sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, Elise Stefanik, var einnig hótað.

FBI sagðist vita um þó nokkrar sprengjuhótanir og atvik þar sem lögreglan var kölluð með flýti á heimili fólks undir röngum formerkjum. Slík göbb eru algeng í Bandaríkjunum og hafa þó nokkrir háttsettir stjórnmálamenn lent í þeim undanfarin ár.

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, var látinn vita af því sem gerðist.

Að minnsta kosti níu manns sem Trump valdi í næstu ríkisstjórn sína fengu hótun, þar á meðal Pete Hegseth, verðandi varnarmálaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert