Hersveitir uppreisnarmanna í Sýrlandi hafa náð meirihluta næststærstu borgar landsins, Aleppo, á sitt vald, að sögn breska eftirlitshópsins Syrian Observatory for Human Rights (SOHR).
Sveitir uppreisnarmanna, sem eru andsnúnir Bashar al-Assad forseta, hafa hafið stærstu sókn sína í mörg ár í þessari viku og hafa yfir 300 manns verið drepnir, þar af 20 almennir borgarar.
Eftirlitsmenn segja að stjórnarherinn hafi veitt litla mótspyrnu og hafa talsmenn hersins greint frá því að uppreisnarmenn hafi farið inn í stóran hluta borgarinnar.
Ríkisstjórn Sýrlands greindi frá því í morgun að herinn hefði hörfað frá borginni en að sögn hersins er það liður í endurskipulagningu á meðan beðið er eftir liðsauka til að hefja gagnárás.
Talsmenn hersins sögðu einnig frá því að nokkrir hermenn hefðu fallið eða særst undanfarna daga í hörðum átökum við uppreisnarmenn bæði í Aleppo og Idlib.