Biden veitti syni sínum sakaruppgjöf

Joe Biden og Hunter Biden síðastliðinn föstudag á leiðinni út …
Joe Biden og Hunter Biden síðastliðinn föstudag á leiðinni út úr bókabúð í Nantucket í Massachusetts-ríki. AFP/Mandel Ngan

Joe Biden Bandaríkjaforseti veitti syni sínum Hunter opinbera sakaruppgjöf í gær þrátt fyrir að hafa talað um að ætla ekki að skipta sér af dómsmálum hans. 

Hunter Biden átti yfir höfði sér dóma fyrir tvo glæpi.

„Engin skynsamleg manneskja sem horfir á staðreyndirnar í málum Hunters getur komist að annarri niðurstöðu en að Hunter var tekinn fyrir, eingöngu vegna þess að hann er sonur minn – og það er rangt,“ sagði forsetinn í yfirlýsingu.

Biden-feðgar árið 2022.
Biden-feðgar árið 2022. AFP/Nicholas Kamm

Málið verður vafalítið til þess að vekja upp frekari umræður um sjálfstæði bandaríska dómskerfisins, sérstaklega vegna þess að verðandi Bandaríkjaforseti, Donald Trump, hefur útnefnt menn sem eru honum hliðhollir til að stjórna málum hjá bandarísku alríkislögreglunni og dómsmálaráðuneytinu.

Hunter Biden var fundinn sekur fyrr á þessu ári fyrir að ljúga til um eiturlyfjanotkun sína þegar hann keypti byssu, auk þess sem hann játaði sekt sína í öðru máli þar sem hann var sakaður um skattaundanskot. Ekki var búið að kveða upp dóma yfir honum.

Joe Biden, sem á aðeins nokkrar vikur eftir í starfi sínu sem Bandaríkjaforseti, hefur ítrekað sagt að hann myndi ekki veita syni sínum sakaruppgjöf.

Hunter Biden yfirgefur dómsal í september síðastliðnum.
Hunter Biden yfirgefur dómsal í september síðastliðnum. AFP/Robyn Beck

Kennir pólitískum andstæðingum um 

„Ég sagðist ekki ætla að skipta mér af ákvarðanatöku dómsmálaráðuneytisins og ég stóð við það jafnvel þótt ég hefði horft upp á son minn tekinn fyrir og saksóttan á ósanngjarnan hátt,“ sagði Biden.

„Þessar ákærur komu aðeins til eftir að þó nokkrir af pólitískum andstæðingum mínum á þingi komu þeim af stað til að ráðast á mig og gegn kjöri mínu,“ bætti hann við.

„Ég trúi á dómskerfið en eftir að hafa velt þessu fyrir mér trúi ég því einnig að grimm pólitík hafi haft áhrif á þetta ferli og leitt til óréttlætis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert