Nauðsynlegt að draga Assad til ábyrgðar

Sýrlenskir uppreisnarmenn veifa fána ofan á skriðdreka í Damaskus í …
Sýrlenskir uppreisnarmenn veifa fána ofan á skriðdreka í Damaskus í dag. AFP

Volker Turk, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, segir að við þær pólitísku breytingar sem séu að eiga sér stað í Sýrlandi, þar sem Bashar al-Assad Sýrlandsforseta hefur verið steypt af stóli, þá verði að gera upp þá glæpi og mannréttindabrot sem hann og aðrir undir hans stjórn bera ábyrgð á.

Þetta sagði Turk við blaðamenn í Genf í Sviss í dag.

Hann segir nauðsynlegt að gögnum verði safnað saman og þau varðveitt. Hann segir að Assad og aðrir háttsettir embættismenn séu grunaðir um ódæðisverk í valdatíð sinni.

Volker Turk.
Volker Turk. AFP/Khaled Desouki

Stjórnin féll á 11 dögum

Assad flúði til Rússlands eftir að sveitir íslamskra uppreisnarmanna nálguðust höfuðborgina Damaskus. Falli einræðisstjórnar Assads var fagnað víða um landið en hann stjórnaði landinu með harðri hendi.

Ríkisstjórn Assads féll aðeins 11 dögum eftir að uppreisnarmennirnir hófu að sækja fram í landinu, sem kom flestum að óvörum. Árið 2011 brutust út mótmæli í Sýrlandi sem beindust gegn stjórnvöldum sem leiddu til borgarastyrjaldar. Undanfarin ár hefur ástandið verið nokkuð stöðugt, eða þar til nú.

Landsmenn hafa fagnað falli Assads forseta.
Landsmenn hafa fagnað falli Assads forseta. AFP

Hálf milljón látist af völdum stríðsátaka

Á þessum 13 árum hafa yfir 500.000 manns látið lífið og hefur um helmingur þjóðarinnar flúið heimili sín.

Turk segir að alvarlegustu mannréttindabrotin varði pyntingar og notkun efnavopna.

Turk vonast til þess að þessi snöggu umskipti leiði til jákvæðra breytinga í landinu og að yfirvöld geti byggt framtíð á grundvelli mannréttinda, frelsis og réttlætis.

Hann bætti við að það væri mikilvægt að taka skipulag öryggismála algjörlega í gegn í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert