Viðræður um valdaskipti eru hafnar í Sýrlandi en leiðtogi uppreisnarhópsins Hayat Tahrir al-Sham (HTS) gekk á fund forsætisráðherra landsins í dag.
Leiðtoginn, sem áður kallaði sig Abu Mohammed al-Jolani en hefur nú tekið upp sitt upphaflega nafn, Ahmed al-Sharaa, hitti forsætisráðherra Sýrlands, Mohammed al-Jalali, í dag þar sem þeir ræddu valdaskipti sem myndu tryggja fyrst og fremst þjónustu til íbúa Sýrlands.
Uppreisnarhópurinn greindi frá þessu á Telegram í dag.
Þúsundir lögðu leið sína að Saydnaya-fangelsinu, rétt fyrir utan Damaskus, í dag til að leita að ættingjum sínum og vinum.
Björgunarsveitin Hvítir hjálmar hafa lagt kapp á að frelsa fanga og hafa brotið niður veggi fangelsisins. Í hinu alræmda fangelsi, sem mannréttindasamtökin Amnesty International hafa kallað sláturhús, hafa þúsundir manna verið fangelsaðar og pyntaðar.
Í stjórnartíð Bashar al-Assad Sýrlandsforseta og föður hans Hafez al-Assad komu þeir feðgar mörgum óvinum sínum bak við lás og slá í fangelsum á borð við Saydnaya.
Það er þó ekki einföld vinna að frelsa alla fanga í fangelsinu. Veggir fangelsisins eru háir, og kjallarar þess djúpir. Er kjallarinn sagður á mörgum hæðum og völundarhús leynast þar.
Björgunarsveitarmenn frá sýrlensku sveitinni Hvítir hjálmar leituðu að leyndum hurðum og kjöllurum í Saydnaya og sögðu í yfirlýsingu að þeir væru að reyna sitt besta en að ættingjar þyrftu að vera viðbúnir hinu versta og sýna þolinmæði.