Gengur fyrir þunglyndislyfjum

Breivik mætir í réttarsalinn 9. janúar.
Breivik mætir í réttarsalinn 9. janúar. AFP/Cornelius Poppe

Lög­manns­rétt­ur Borg­arþings í Nor­egi var sett­ur klukk­an níu í gær­morg­un, mánu­dag, í aðalmeðferð áfrýj­un­ar­máls fjölda­morðingj­ans And­ers Behrings Brei­viks í dómi Héraðsdóms Ósló­ar frá því í fe­brú­ar sem þá dæmdi að aðstæður Brei­viks við afplán­un hans í Rin­gerike-fang­els­inu í Tyr­istrand brytu ekki í bága við ákvæði mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu.

„Ríkið hef­ur látið í veðri vaka að [rétt­ar­höld­in] séu aðferð til þess að dreifa póli­tísk­um áróðri,“ sagði Øystein Storrvik lögmaður fjölda­morðingj­ans í opn­un­ar­ræðu sinni við lög­manns­rétt­inn í gær, en aðalmeðferð máls­ins fer fram gegn­um fjar­funda­búnað milli áfrýj­un­ar­dóm­stóls­ins og íþrótta­sal­ar­ins í Rin­gerike-fang­els­inu.

„Ég tel þá full­yrðingu alranga þar sem ekk­ert í okk­ar mála­til­búnaði ger­ir ráð fyr­ir neinu slíku og svo var ekki held­ur fyr­ir héraðsdómi,“ sagði Storrvik enn frem­ur. Frá því Brei­vik tók að afplána dóm sinn sem féll síðsum­ars árið 2013, tveim­ur árum eft­ir böl­verk hans í miðborg Ósló­ar og á Útey, hef­ur hann setið í nán­ast al­gjörri ein­angr­un með þeim und­an­tekn­ing­um að hitta lög­mann sinn og starfs­fólk norsku fang­els­is­mála­stofn­un­ar­inn­ar.

Bjóði ekki meðferðarúr­ræði

Enn frem­ur sagði Storrvik í rétt­ar­saln­um í dag að ríkið byði eng­ar mála­miðlan­ir og hefði að auki hlaup­ist und­an þeirri skyldu sinni að bjóða fang­an­um viðeig­andi meðferðarúr­ræði. Þá bætti stíft eft­ir­lit fang­els­is­ins með bréfa­skrift­um hans ekki úr skák og væri í raun til þess fallið að þyngja Brei­vik enn frem­ur vist­ina.

Hann afplánaði árum sam­an í Telemark-fang­els­inu í Skien eft­ir að hafa setið í gæslu­v­arðhaldi frá hand­töku í júlí 2011 og fram að dómi í Ila-fang­els­inu í Bær­um, ná­granna­sveit­ar­fé­lagi Ósló­ar. Frá því í hitteðfyrra hef­ur hann setið í Rin­gerike.

„Hann lif­ir í lokuðum heimi,“ sagði Storrvik og lýsti því hvernig skjól­stæðing­ur hans kæmi sér gegn­um dag­inn með notk­un þung­lynd­is­lyfja.

Skammt hef­ur nú verið stórra högga á milli í mál­um Brei­viks, en á miðviku­dag­inn var komst héraðsdóm­ur að þeirri niður­stöðu að eng­in efni teld­ust til að veita hon­um reynslu­lausn er hann sótti öðru sinni um hana sem hon­um varð fyrst kleift í fyrra þegar tíu ár voru liðin frá því hon­um var dæmt að sæta því norska réttar­úr­ræði sem kall­ast for­var­ing, eða varðveisla, í 21 ár með lág­marks­afplán­un til tíu ára.

Tákn­ar dóm­ur­inn þó ekki að 21 ár sé há­marks­refs­ing Brei­viks þar sem for­var­ing-dóma má fram­lengja án nýrr­ar ákæru telji sér­fræðing­ar á sviði geðlækn­is­fræði hættu á að brotamaður ít­reki brot gangi hann laus. Get­ur fangi, sem afplán­ar for­var­ing-dóm, þannig setið æv­ina á enda í fang­elsi.

VG

ABC Nyheter

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert