Gengur fyrir þunglyndislyfjum

Breivik mætir í réttarsalinn 9. janúar.
Breivik mætir í réttarsalinn 9. janúar. AFP/Cornelius Poppe

Lögmannsréttur Borgarþings í Noregi var settur klukkan níu í gærmorgun, mánudag, í aðalmeðferð áfrýjunarmáls fjöldamorðingjans Anders Behrings Breiviks í dómi Héraðsdóms Óslóar frá því í febrúar sem þá dæmdi að aðstæður Breiviks við afplánun hans í Ringerike-fangelsinu í Tyristrand brytu ekki í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

„Ríkið hefur látið í veðri vaka að [réttarhöldin] séu aðferð til þess að dreifa pólitískum áróðri,“ sagði Øystein Storrvik lögmaður fjöldamorðingjans í opnunarræðu sinni við lögmannsréttinn í gær, en aðalmeðferð málsins fer fram gegnum fjarfundabúnað milli áfrýjunardómstólsins og íþróttasalarins í Ringerike-fangelsinu.

„Ég tel þá fullyrðingu alranga þar sem ekkert í okkar málatilbúnaði gerir ráð fyrir neinu slíku og svo var ekki heldur fyrir héraðsdómi,“ sagði Storrvik enn fremur. Frá því Breivik tók að afplána dóm sinn sem féll síðsumars árið 2013, tveimur árum eftir bölverk hans í miðborg Óslóar og á Útey, hefur hann setið í nánast algjörri einangrun með þeim undantekningum að hitta lögmann sinn og starfsfólk norsku fangelsismálastofnunarinnar.

Bjóði ekki meðferðarúrræði

Enn fremur sagði Storrvik í réttarsalnum í dag að ríkið byði engar málamiðlanir og hefði að auki hlaupist undan þeirri skyldu sinni að bjóða fanganum viðeigandi meðferðarúrræði. Þá bætti stíft eftirlit fangelsisins með bréfaskriftum hans ekki úr skák og væri í raun til þess fallið að þyngja Breivik enn fremur vistina.

Hann afplánaði árum saman í Telemark-fangelsinu í Skien eftir að hafa setið í gæsluvarðhaldi frá handtöku í júlí 2011 og fram að dómi í Ila-fangelsinu í Bærum, nágrannasveitarfélagi Óslóar. Frá því í hitteðfyrra hefur hann setið í Ringerike.

„Hann lifir í lokuðum heimi,“ sagði Storrvik og lýsti því hvernig skjólstæðingur hans kæmi sér gegnum daginn með notkun þunglyndislyfja.

Skammt hefur nú verið stórra högga á milli í málum Breiviks, en á miðvikudaginn var komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að engin efni teldust til að veita honum reynslulausn er hann sótti öðru sinni um hana sem honum varð fyrst kleift í fyrra þegar tíu ár voru liðin frá því honum var dæmt að sæta því norska réttarúrræði sem kallast forvaring, eða varðveisla, í 21 ár með lágmarksafplánun til tíu ára.

Táknar dómurinn þó ekki að 21 ár sé hámarksrefsing Breiviks þar sem forvaring-dóma má framlengja án nýrrar ákæru telji sérfræðingar á sviði geðlæknisfræði hættu á að brotamaður ítreki brot gangi hann laus. Getur fangi, sem afplánar forvaring-dóm, þannig setið ævina á enda í fangelsi.

VG

ABC Nyheter

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert