Ísraelar eru sagðir hafa eyðilagt mikilvægustu herstöðvar Sýrlands í umfangsmiklum loftárásum.
Ísraelar, sem eiga landamæri að Sýrlandi, sendu hersveitir á hlutlaust svæði í austurhluta Gólanhæða eftir að Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, hrökklaðist frá völdum. Gideon Saar, utanríkisráðherra Ísraels, sagði ákvörðunina vera tímabundið skref, gerða af öryggisástæðum.
Ísraelsher hefur einnig gert „um 250 loftárásir á sýrlenskt landssvæði“ síðustu 48 klukkustundirnar til að eyðileggja herstöðvar fyrrverandi stjórnvalda í Sýrlandi, að sögn mannréttindasamtakanna Syrian Observaroty for Human Rights sem eru með bækistöðvar í Bretlandi.
Ísraelar skutu á bækistöðvar sýrlenska flughersins skammt frá hafnarborginni Latakia og eyðilögðu sýrlensk herskip. Einnig skutu þeir á byggingar á vegum hersins í og í kringum höfuðborgina Damaskus.
Írönsk stjórnvöld hafa fordæmt innrás Ísraela á hlutlausa svæðið á Gólanhæðum og segja þá hafa brotið lög. Sameinuðu þjóðirnar hafa sinnt friðargæslu á svæðinu.