Sýrlenskir uppreisnarmenn hafa kveikt í grafhýsi Hafez al-Assad, fyrrverandi forseta landsins og föður Bashars al-Assad Sýrlandsforseta sem var steypt af stóli um helgina.
Á myndskeiðum má sjá vopnaða menn hrópa er þeir ganga um grafhýsið í Qardaha í norðvestanverðu landinu.
Uppreisnarmennirnir, undir forystu íslamistahópsins Hayat Tahrir al-Sham (HTS), náðu í síðustu viku að binda enda á 54 ára valdatíð Assad-ættarinnar. Bashar al-Assad Sýrlandsforseti flúði land og hefur nú fengið hæli í Rússlandi.
Höggmyndir og veggspjöld af Hafez al-Assad hafa verið tekin niður víða í landinu, oft við mikil fagnaðarlæti íbúa. Hafez stýrði landinu frá 1971 fram að andláti sínu árið 2000, en þá hlaut sonur hans völdin.