Embættismenn hjá bandarískum stjórnvöldum staðfestu á dögunum að kínverskir tölvuþrjótar, þekktir undir nafninu Salt Typhoon, hafi komist inn í að minnsta kosti átta bandarísk fjarskiptakerfi. Þetta kemur fram í grein The Economist.
Tölvuþrjótarnir stálu ýmsum gögnum, svo sem upptökum af símtölum fjölda Bandaríkjamanna.
Þá komust þeir yfir símhlerunarheimildir öryggisstofnana í Bandaríkjunum, en með þær upplýsingar í höndunum hefðu þrjótarnir meðal annars getað komist að því hvort kínverskir njósnarar eru undir bandarísku eftirliti.
Samkvæmt upplýsingum frá bandarískum stjórnvöldum beindu tölvuþrjótarnir njósnum sínum einkum að símum embættismanna sem og stjórnmálamanna.
Úr þeim hópi má nefna Donald Trump, verðandi forseta, J.D. Vance, verðandi varaforseta, svo og ýmsa aðra í stjórn Joe Bidens forseta, og einnig nokkra meðlimi kosningaherferðar Kamölu Harris.
Mark Warner, formaður leyniþjónustunefndar öldungadeildarinnar, hefur kallað þetta „langversta tölvuinnbrot í fjarskiptakerfi í sögu þjóðarinnar.“
Eftir kynningarfund frá bandarískum leyniþjónustustofnunum sagði Brendan Carr, sem bráðum tekur við sem formaður alríkissamskiptanefndarinnar:
„Þetta lét mig vilja mölbrjóta símann minn. Tölvuþrjótarnir eru áfram innan netkerfanna. Bandarískir embættismenn eiga í erfiðleikum með að skilja hversu djúpt þetta hefur náð.“
Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem kínverskir tölvuþrjótar gera svona atlögu að Bandaríkjunum, því árið 2023 uppgötvuðu bandarískir embættismenn tölvuþrjóta úr öðrum kínverskum hóp, Volt Typhoon, sem leyndust inni í netkerfum tengdum mikilvægum innviðum Bandaríkjanna.
Þeir höfðu verið þar inni í um fimm ár áður en njósnirnar uppgötvuðust, en þeir náðu ekki að aðhafast neitt heldur voru bara að skrá sig inn á sex mánaða fresti til að tryggja að þeir hefðu enn aðgang.
Síðan þá hafa bandarískir embættismenn kallað Kína „virkustu netógn“ sem er á radar bandarísku leyniþjónustunnar.
Christopher Wray, fráfarandi forstjóri FBI, hefur sagt að jafnvel þó að allir netþjónar stofnunarinnar væru nýttir og sérfræðingar ynnu eingöngu að vörnum gegn Kína, væru kínverskir tölvuþrjótar samt um 50 sinnum fleiri.