Dominique Pelicot, sem játað hefur fyrir dómi að hafa gefið fyrrverandi konunni sinni slævandi lyf og nauðgað henni ítrekað, ásamt því að hafa fengið tugi karlmanna til að gera slíkt hið sama, kallaði eftir fyrirgefningu fjölskyldu sinnar í lokaorðum sínum við réttarhöldin í dag. AFP-fréttastofan greinir frá.
Þá hrósaði hann hugrekki Gisele Pelicot, fyrrverandi konu sinnar.
„Ég vilja byrja á að hrósa fyrrverandi konu minni fyrir hugrekki sitt. Ég sé eftir því sem ég gerði, fjölskylda mín þjáist vegna mín, ég bið um fyrirgefningu þeirra. Vona að þau taki við afsökunarbeiðni minni.“
Málið hefur vakið mikinn óhug í Frakklandi, en Pelicot hefur viðurkennt að hafa í næstum áratug byrlað konu sinni lyf og fengið karlmenn, sem hann komst í samband við á netinu, til að nauðga henni.
Gisele hefur orðið að femínskri hetju bæði í Frakklandi og um heim allan fyrir að neita að bera skömmina sjálf og vilja skila henni þangað sem hún á heima. Hún óskaði einnig sjálf eftir því að réttarhöldin yrðu opin til að vekja athygli á þessari tegund glæpa.
Fyrir utan eiginmann hennar, er réttað yfir fimmtíu öðrum karlmönnum á aldrinum 27 til 74 ára, sem brutu á Gisele. Jafnframt er réttað yfir einum karlmanni sem á að hafa brotið á eiginkonu sinni með hjálp Dominique.
Í lokaorðum sínum sagðist Dominique hafa sagt sannleikann við réttarhöldin allan tímann. Hann þakkaði einnig fyrir að fá að sitja í sérstökum stól heilsu sinnar vegna.
Hann sagðist hafa verið kallaður ýmsum nöfnum, en að helst vildi hann gleymast. „Ég vil segja fjölskyldunni minni að ég elska þau,“ sagði hann svo áður en hann snéri sér að dómurunum og sagði þeim að örlög hans væru í þeirra höndum.
Gert er ráð fyrir því að dómur verði kveðinn upp í málinu á fimmtudag, en krafist hefur verið hámarksrefsingar yfir Dominique, eða 20 ára fangelsi.
Þegar Gisele yfirgaf réttarsalinn í dag var henni fagnað eins og hetju, það var klappað og hrópað: „Bravó Gisele!“