Mangione ákærður: „Þetta var ekki venjulegt morð“

Morðið hefur vakið mikla athygli.
Morðið hefur vakið mikla athygli. AFP/Jeff Swensen

Luigi Mangione hef­ur verið ákærður fyr­ir morðið á Brian Thompson, for­stjóra stærsta sjúkra­trygg­inga­fyr­ir­tæk­is Banda­ríkj­anna, af héraðssak­sókn­ara á Manhattan í New York.

Thompson var 50 ára tveggja barna faðir og tók við sem for­stjóri UnitedHealthcare árið 2021. Snemma morg­uns 4. des­em­ber var hann hins veg­ar myrt­ur í skipu­lagðri árás sem náðist á upp­töku.

Alvin Bragg héraðssaksóknari hefur gefið út morðákæru á hendur Mangione í nokkrum liðum og í einum þeirra fellur morðið undir hryðjuverk.

Morð sem átti að vekja skelfingu

Bragg sagði að hryðjuverkaákæran hefði verið tekin með því skotárásin uppfyllti skilyrði fyrir slíkri ákvörðun samkvæmt lögum í New York.

„Í grunninn var þetta morð sem átti að vekja skelfingu og við höfum séð þau viðbrögð,“ sagði hann. „Þetta var ekki venjulegt morð.“

Mangione lagði á flótta eft­ir árás­ina en hann fannst svo á McDonald's í Altoona í Pennsylvaníu 9. desmeber. Hann er enn í Pennsylvaníu og berst gegn því að verða framseldur til New York.

Skotvopnið var þrívíddprentað

Verði Mangione sakfelldur gæti hann átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsisvist.

Mangione var einnig ákærður fyrir nokkur afbrot sem tengdust því að hann hafði í fórum sínum vopn, sem að sögn yfirvalda var þrívíddaprentuð skammbyssa sem og þrívíddprentaður hljóðdeyfir á byssuna.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert