Björgunarsveitir á Ítalíu hafa komið konu til bjargar sem hafði setið föst inni í helli í fjóra daga eftir að hafa slasast. Þetta er í annað sinn sem sveitirnar koma konunni til aðstoðar og þurfa að bera hana út úr sama helli.
Konan, Ottavia Piana, er 32 ára gömul. Henni var komið til aðstoðar á norðurhluta Ítalíu snemma í morgun. Hún hafði hlotið nokkur beinbrot eftir slæmt fall á laugardag.
Alls tóku 159 björgunarsveitarmenn frá 13 héruðum þátt í aðgerðinni. Þeim tókst að ná Piana úr hellinum rétt fyrir þrjú í nótt að staðartíma og var flogið með hana á sjúkrahús í Bergamo.
Fram kemur í umfjöllun AFP að það hafi tekið fjóra daga að komast að Piana þar sem sprungan sem hún féll ofan í var of þröng og því ekki hægt að koma sjúkrabörum til hennar. Þeir urðu því að beita sérstökum og örsmáum sprengjum til að búa til meira pláss.
Sex læknar og átta hjúkrunarfræðingar tóku þátt í aðgerðinni. Þeirra á meðal var læknirinn Leonardo Sattin sem hafði tekið þátt í annarri björgunaraðgerð fyrir um einu og hálfu ári þar sem Piana slasaðist í sama helli. Þá fótbrotnaði hún í hellaleiðangrinum og björgunarsveitir urðu að koma henni til aðstoðar.
„Læknir, við þekkjum hvort annað,“ sagði Piana við Sattin að því er segir í umfjöllun ítalska dagblaðsins Corriere della Serra.
Þá hefur einn björgunarsveitarmannanna greint frá því að þeir hafi sýnt henni skilaboð frá vinum hennar til að hjálpa henni andlega í gegnum þolraunina.