Fékk erfðabreytt svínsnýra grætt í sig

Towana Looney. Hún mun hljóta lyfjagjafir næstu vikur á meðan …
Towana Looney. Hún mun hljóta lyfjagjafir næstu vikur á meðan ónæmiskerfi hennar venst hinu nýja líffæri. AFP

Bandarísk kona frá Alabama að nafni Towana Looney er nýjasti viðtakandi erfðabreytts svínsnýra og er í dag eina lifandi manneskjan á jörðinni sem hlotið hefur líffæraígræðslu frá dýri.

Háskólasjúkrahúsið Langone Health í New York-ríki greindi frá ígræðslunni í gær, þremur vikum eftir að hún var framkvæmd.

Þá hefur Lonney sjálf tjáð sig um ígræðsluna en í yfirlýsingu til fjölmiðla segir hún ígræðsluna hafa verið blessun.

Gæti hjálpað tugþúsundum manna

Ígræðslur af þessu tagi, þar sem einstaklingar fá líffæri frá dýrum, voru lengi taldar óhugsandi en hafa á undanförnum árum verið að ná ákveðnum skriðþunga vegna framfara á sviði erfðabreytinga og stjórnunar á ónæmiskerfinu.

Þá er vonast til að þessi þróun gæti hjálpað til við að takast á við þann líffæraskort sem nú ríkir í Bandaríkjunum en um 100.000 Bandaríkjamenn bíða eftir líffæraígræðslu og eru þar á meðal 90.000 sem þurfa á nýrum að halda.

Looney hafði gefið móður sinni annað nýrað sitt árið 1999 en hlaut svo nýrnaskemmd á hinu nýra sínu nokkrum árum síðar vegna fylgikvilla á meðgöngu. Var hún búin að glíma við nýrnasjúkdóm síðan árið 2016 og reyndist læknum erfitt að finna viðeigandi samsvörun vegna mikils magns af skaðlegum mótefnum í kerfi hennar sem ýtir undir líkur á að líkaminn hafni ígræddu líffæri.

Tveir látnir eftir sömu aðgerð en rannsakendur bjartsýnir

Í dag hafa þrjár líffæraígræðslur verið framkvæmdar þar sem erfðabreytt svínsnýra er grætt í fólk. Sá fyrsti sem fór í slíka aðgerð, Rick Slayman, lést í maí 62 ára gamall, tveimur mánuðum eftir að aðgerðin var framkvæmd.

Þá fór kona að nafni Lisa Pasano einnig í sömu ígræðslu en lést svo 47 dögum síðar, í júlí.

Þrátt fyrir áskoranir eru vísindamenn á sviðinu áfram bjartsýnir þar sem þeir segja tæknina sífellt verið að þróast.

Þá sé einnig verið að vinna með bættum erfðabreyttum svínsnýrum og er valið sjúklinga sem eru ekki jafn alvarlega veikir.

Erfðabreytt svín á rannsóknarstofu í bænum Blacksburg í Virginíuríki.
Erfðabreytt svín á rannsóknarstofu í bænum Blacksburg í Virginíuríki. AFP

Mun dvelja áfram í New York og hljóta lyfjagjafir

Robert Montgomery, sem stýrði ígræðslunni þann 25. nóvember, segir að ekki hefði verið hægt að taka næstu skref í líffæraígræðslum frá dýrum án örlætis og fórnfýsi þeirra sem tóku þátt í rannsóknunum.

Segir hann tilfelli Lonneys vera undanfari mögulegra klínískra rannsókna sem munu ákvarða hvort erfðabreytt svínanýru verði nógu örugg til að geta verið grædd í það fólk sem þarf á nýjum nýrum að halda.

Skurðaraðgerðin var sjöunda líffæraígræðslan þar sem líffæri dýra eru grædd í fólk sem Montgomery tekur þátt í en hann stóð einnig að baki fyrstu erfðabreyttu líffæraígræðslunni á milli svíns og manneskju, sem þá var látin, árið 2021.

Lonney var útskrifuð frá sjúkrahúsinu 6. desember en mun þó dvelja áfram í New York þar sem fylgst verður með henni og mun hún hljóta lyfjagjafir á meðan ónæmiskerfi hennar venst nýja líffærinu.

Þá er gert ráð fyrir að hún fái að fara heim til sín eftir þrjá mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert