Breska lögreglan hafði í dag betur í dómsmáli gegn hinum umdeilda áhrifavaldi Andrew Tate og bróður hans, Tristan Tate, en lögreglunni er heimilt að leggja hald á rúmar tvær milljónir punda, sem jafngildir um 350 milljónum kr., til að gera upp ógreidda skatta. En bræðurnir skulda skattayfirvöldum margar milljónir.
Dómstóll í London gaf lögreglunni heimild til að leggja hald á fjármunina sem lágu inni á sjö bankareikningum sem búið var að frysta, en þetta var niðurstaða einkamáls sem var höfðað á hendur bræðrunum.
Bræðurnir hafa verið í stofufangelsi í Rúmeníu og bíða þeir nú eftir að mæta í dómsal í landinu þar sem tekin verður ákvörðun um hvort réttað verði yfir þeim vegna ásakana um mansal og nauðgun.
Andrew Tate er 38 ára gamall fyrrverandi bardagaíþróttamaður. Bróðir hans er tveimur árum yngri.
Í málinu í London greindi lögreglan frá því við réttarhaldið að bræðurnir hefðu ekki greitt skatt af tekjum sem þeir hafa fengið í gegnum netfyrirtæki sem þeir rekja, en tekjurnar námu alls 21 milljón punda, eða sem nemur 3,6 milljörðum kr., á milli áranna 2014 til 2022.
Það var lögreglan í Devon og Cornwall á suðvesturhluta Englands sem höfðaði málið gegn bræðrunum og þriðja aðila, sem var aðeins kallaður J.
Dómarinn Paul Goldspring sagði við dómsuppkvaðninguna að það sem virtist vera flókinn fjármálagjörningur væri í raun ekkert annað en skattsvik.
Lögmaður lögreglunnar spilaði upptöku við réttarhöldin, sem hafði verið birt á vefnum, þar sem Andrew Tate sagðist hafa neitað að borga skatta þegar hann bjó á Englandi. Greint var frá því að markmið hans hefði verið að hunsa skattinn ítrekað þangað til vandamálið hyrfi á brott.
Lögmaðurinn sagði að bræðurnir ættu gríðarlega marga bankareikninga í Bretlandi sem fjármunir hafi verið þvættaðir í gegnum þá. Sem fyrr segir er búið að fyrsta sjö reikninga.
„Svona líta skattaundanskot út, þetta er það sem peningaþvætti gengur út á,“ sagði lögmaðurinn.