Sænska lögreglan segir að karlmaður hafi verið skotinn til bana í bílastæðahúsi í borginni Norrköping í Svíþjóð. Fram kemur í sænskum fjölmiðlum að þetta hafi verið tónlistarmaðurinn og rapparinn Gaboro, sem er sagður hafa tengst glæpasamtökum í landinu.
Myndskeið hefur verið birt á samfélagsmiðlum sem sýnir árásina.
Fram kemur í umfjöllun AFP-fréttaveitunnar að svo virðist sem að byssumaðurinn hafi verið með myndavél á sér. Hann sést halda á skammbyssu og skjóta nokkrum sinnum úr byssunni.
Talsmaður lögreglunnar segir að hún viti af myndskeiðinu og það sé hluti af rannsóknargögnum málsins.
Lögreglan segir að maður á þrítugsaldri hafi fundist særður á vettvangi snemma í gærmorgun. Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann var úrskurðaður látinn síðar sama dag.
Nokkrir sænskir fjölmiðlar hafa greint frá nafni mannsins, þ.e. að sá látni sé Gaboro. Hann hefur notið vinsælda í heimalandinu og hefur lögum hans verið streymt mörgum milljón sinnum á Spotify.
Skot- og sprengjuárásum glæpagengja hefur farið fjölgandi í Svíþjóð að undanförnu en árásirnar eru sagðar tengjast átökum ólíkra glæpahópa, m.a. hefndarárásum. Lögreglunni hefur gengið illa að ná tökum á fíkniefnamarkaðinum í landinu sem klíkurnar berjast um.
Nokkrir þekktir listamenn hafa þegar beðið bana í svipuðum ofbeldisverkum.
Í júní var C. Gambino, sem hét réttu nafni Karar Ramadan, skotinn til bana. Hann var 26 ára gamall. Til að fyrirbyggja allan misskilning skal tekið fram að það er annar tónlistarmaður sem gengur undir listamannsnafninu Childish Gambino, en það er bandaríski leikarinn og tónlistarmaðurinn Donald Glover.
Í október fyrir þremur árum var sænski rapparinn Einar skotinn til bana í Stokkhólmi. Það var hluti af gengjaátökum.
Alls létust 53 einstaklingar í 363 skotárásum í Svíþjóð í fyrra. Árásirnar hafa oft verið gerðar um hábjartan dag á opinberum stöðum, og nokkrum sinnum hafa saklausir vegfarendur særst eða látið lífið.