Undirritar bráðabirgðafjárlög eftir dramatíska viku

Joe Biden hefur undirritað bráðabirgðafjárlög sem bæði fulltrúadeild og öldungadeild …
Joe Biden hefur undirritað bráðabirgðafjárlög sem bæði fulltrúadeild og öldungadeild Bandaríkjaþings samþykktu í gærkvöldi. AFP/Richard Pierrin

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur undirritað bráðabirgðafjárlög sem munu fjármagna hið opinbera fram í miðjan mars.

Mikið karp var um fjárlögin á þinginu í vikunni en hefðu fjárlögin ekki verið samþykkt af Bandaríkjaþingi fyrir miðnætti í gær þá hefði öll starfsemi hins opinbera, sem ekki telst vera lykilstarfsemi, stöðvast. Mikið var því í húfi og stuttur tími til stefnu.

Alls voru þrjú bráðabirgðafjárlög kynnt í vikunni. Hætt var við það fyrsta eftir að Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, skarst í leikinn, eitt þeirra féll í atkvæðagreiðslu en svo var þriðja frumvarpið samþykkt af Bandaríkjaþingi í gærkvöldi.

Elon Musk blandaði sér í málið

Það reyndist repúblikönum í fulltrúadeildinni erfitt að klára málið en í vikunni voru bráðabirgðafjárlög tilbúin sem voru með þverpólitískan stuðning.

Elon Musk og Vivek Ramaswamy, sem Donald Trump hefur falið að leiða svokallaða hagræðingarstofnun, skárust svo í leikinn ásamt Trump þegar þeir sáu fjárlögin og settu þrýsting á repúblikana að hætta við þau.

Mike Johnson, forseti fulltrúadeildarinnar, féllst á það og kom svo með önnur bráðabirgðafjárlög sem Trump studdi en þau fjárlög voru ekki samþykkt af fulltrúadeildinni, sem repúblikanar eru þó með meirihluta í.

Úr varð að í seint í gærkvöldi, áður en starfsemi hins opinbera stöðvaðist, kom Johnson með ný bráðabirgðafjárlög sem meirihluti beggja þingflokka samþykkti í fulltrúadeildinni og öldungadeildin afgreiddi snögglega, nokkrum mínútum eftir miðnætti.

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP/Andrew Harnik

Ýmis starfsemi ríkisins var á barmi þess að stöðvast

Eðli málsins samkvæmt þá eiga mál það oft til að taka sinn tíma í öldungadeildinni og því óttuðust sumir að umræður um fjárlögin myndu standa yfir fram í næstu viku. Öldungadeildin ákvað hins vegar að klára málið strax og samþykkti fjárlögin nokkrum mínútum eftir miðnætti.

Eins og fyrr segir þá hefði öll starfsemi hins opinbera, sem ekki telst vera lykilstarfsemi, stöðvast (e. Government shutdown), ef bráðabirgðafjárlögin hefðu ekki verið samþykkt í tæka tíð.

Starfsmenn í lykilþjónustu eins og löggæslu hefðu haldið áfram störfum en aðeins fengið laun þegar búið væri að samþykkja fjárlög. Margir þjóðgarðar, söfn og annað á vegum hins opinbera hefði stöðvað starfsemi.

Auk þess að halda áfram að fjármagna starfsemi hins opinbera þá var samþykkt í fjárlögunum 110 milljarða dollara í stuðning við landbúnað og við svæði sem hafa orðið fyrir náttúruhamförum vegna fellibylja.

Mike Johnson, forseti fulltrúadeildarinnar.
Mike Johnson, forseti fulltrúadeildarinnar. AFP/Richard Pierrin

Fóru úr því að vera 1.547 blaðsíður yfir í 118 blaðsíður

Smá kjöt var skorið af beinunum miðað við fyrstu bráðabirgðafjárlögin áður en Trump skarst í leikinn.

Munurinn á þessum fjárlögum og upphaflegu fjárlögunum er til dæmis sá að þingmenn fá ekki launahækkun, takmarkanir á fjárfestingum Bandaríkjamanna í Kína verða ekki hertar og fleira.

Fyrstu bráðabirgðafjárlögin voru 1.547 blaðsíður, næstu fjárlög sem Trump studdi voru aðeins 116 blaðsíður en bráðabirgðafjárlögin sem voru samþykkt voru 118 blaðsíður.

„Forseti þingsins gerði góða vinnu hérna, miðað við aðstæður,“ sagði Elon Musk í kjölfar þess að fjárlögin voru samþykkt, en demókratar voru æfir yfir afskiptum hans af ferlinu.

Donald Trump og Elon Musk eru orðnir bestu mátar, að …
Donald Trump og Elon Musk eru orðnir bestu mátar, að er virðist. Musk hefur blandað sér mikið inn í stjórnmálin og demókratar eru ekki sáttir með það. AFP/Jim Watson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert