Danska ríkið tilkynnti mikla aukningu í útgjöldum til varnarmála Grænlands, nokkrum klukkustundum eftir að Donald Trump, kjörinn Bandaríkjaforseti, birti færslu á samskiptamiðli sínum, Truth Social, um að eignarhald Bandaríkjanna á Grænlandi væri nauðsyn í þágu alheimsfriðar og -öryggis.
Troels Lund Poulsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, greindi frá því að um væri að ræða „tveggja stafa milljarða upphæð“ danskra króna, eða nærri 39 milljarða íslenskra króna.
Hann lýsti tímasetningu tilkynningarinnar sem „kaldhæðni örlaganna“.
BBC greinir frá því að stór bandarísk geimstöð sé á Grænlandi, sem er sjálfstjórnarhérað Danmerkur, og að eyjan sé hernaðarlega mikilvæg fyrir Bandaríkjamenn.
Poulsen sagði að gert sé ráð fyrir að fjármunirnir muni meðal annars nýtast til kaupa á tveimur nýjum skoðunarskipum, tveimur nýjum langdrægum drónum og tveimur nýjum hundasleðasveitum.
„Við höfum ekki fjárfest nægilega mikið á norðurslóðum í mörg ár, nú erum við að skipuleggja sterkari viðveru,“ sagði hann.
Poulsen greindi ekki frá nákvæmri upphæð en danskir miðlar telja að um 12 til 15 milljarða danskra króna sé að ræða.
„Í þágu þjóðaröryggis og alheimsfriðar, telja Bandaríkin að eignarhald og yfirráð yfir Grænlandi sé algjör nauðsyn,“ sagði í færslu Trump í gær.
„Grænland tilheyrir Grænlendingum,“ sagði Mute Egede, forsætisráðherra Grænlands, í kjölfarið. Hann hvatti þó á sama tíma til samvinnu og viðskipta við önnur ríki heims, þá einkum nágrannaríki.
Sérfræðingar telja að aukin útgjöld Dana í varnarmál Grænlands séu ekki bein afleiðing yfirlýsingar Trumps, heldur sé um áætlun sem var til umræðu í langan tíma að ræða.
Steen Kjaergaard varnarmálasérfræðingur sagðist telja að áætlun Trumps hafi verið að setja pressu á Dani til að auka varnir Grænlands gegn Rússum og Kínverjum.
„Ég held að Trump sé snjall... hann fær Dani til að forgangsraða hernaðargetu sinni á norðurslóðum með því að nota rödd sína, án þess að þurfa að taka yfir mjög óamerískt velferðarkerfi,“ sagði hann við BBC og vísaði þar til þess að Grænlendingar séu mjög háðir styrkjum frá Danmörku.
Trump minntist fyrst á að hann vildi eignast Grænland árið 2019. Því var álíka illa tekið þá.
Metta Fredriksen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði hugmyndina „fáranlega“ sem leiddi til þess að Trump hætti við opinbera heimsókn til landsins.
Hann er þó ekki fyrsti forseti Bandaríkjanna til þess að stinga upp á því en Andrew Johnson viðraði hugmyndina um 1860.