Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, var útskrifaður af sjúkrahúsi í dag um sólarhring eftir að hann þurfti að leggjast inn með flensu.
„Hann og fjölskylda hans eru innilega þakklát fyrir þá einstöku umönnun sem teymið á MedStar Georgetown-háskólasjúkrahúsinu veitti honum og eru djúpt snortin af velfarnaðaróskum sem hann fékk,“ tísti Angel Urena, aðstoðarstarfsmannastjóri Clintons.
Clinton, sem er 78 ára gamall, þurfti síðast að leggjast inn á sjúkrahús í fimm nætur í október 2021 vegna blóðeitrunar.
Árið 2004 þurfti Clinton að fara í hjáveituaðgerð á hjarta og árið 2010 var grætt í hann stoðnet í hjartaslagæðina. Clinton ákvað eftir veikindin 2004 að gera breytingar á lífstíl sínum og gerðist m.a. grænmetisæta.